Hagnaður fjárfestingafélagsins Stoða á fyrri hluta árs 2019 nam 2.023 milljónum króna. Eigið fé Stoða þann í lok tímabilsins nam 23,2 milljörðum króna en þetta kemur fram í tilkynningu á vef fjárfestingafélagsins.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í byrjun mánaðar bættu Stoðir verulega við hlut sinn í Símanum í síðasta mánuði og er félagið í dag orðinn stærsti hluthafi félagsins með tæplega þrettán prósenta hlut. Stoðir hófu að fjárfesta í Símanum í apríl síðastliðnum þegar fjárfestingafélagið eignaðist rúmlega átta prósenta hlut í fyrirtækinu.

Auk eignarhlutar í Símanum er fjárfestingafélagið Stoðir stærsti hluthafi tryggingafélagsins TM og á meðal umsvifamestu eigenda Arion banka með tæplega fimm prósenta hlut.

Stærsti hluthafi Stoða með um 65 prósenta hlut er eignarhaldsfélagið S121 sem er meðal annars í eigu félaga á vegum Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Örvars Kjærnested, fjárfestis og stjórnarformanns TM.

Stoðir högnuðust um 1.100 milljónir króna árið 2018 sem var fyrsta ár Stoða sem virkt fjárfestingafélag. Námu fjárfestingar á árinu 2018 samtals 5,3 milljörðum og var eigið fé félagsins um 17,5 milljarðar í lok ársins.