Tvær milljónir spilara hafa nú for­skráð sig fyrir far­síma­út­gáfu EVE Echoes á Android en for­svars­menn CCP búast við svipuðum fjölda þegar iP­hone út­gáfan af leiknum verður kynnt. Þetta kemur fram í til­kynningu frá ís­lenska fyrir­tækinu.

Þar kemur meðal annars fram að árið 2020 ætti að verða hið stærsta í 23 ára rekstrar­sögu ís­lenska tölvu­leikja­fram­leiðandans. Mánaðar­leg fjölgun spilara í fjöl­spilunar­leiknum EVE On­line er tvö­falt meiri en í fyrra. Þannig eru kóreskir spilarar orðnir 15 prósent dag­legra virkra not­enda leiksins en EVE On­line var ný­lega stað­færður sér­stak­lega fyrir kóreskan markað.

Í til­kynningunni segir að tafir hafi orðið á út­gáfu leikjanna á nýjum markaðs­svæðum. Þar segir þó að stjórn­endur CCP séu þess full­vissir um að markaðs­setning EVE Echoes á Vestur­löndum og EVE On­line í Kína geti hafist á þessu ár. Tafirnar sem hafi orðið á út­gáfu EVE Echoes í far­síma og EVE On­line á PC í Kína, vegna á­stæðna sem fyrir­tækið hafði ekki stjórn á, hafa í för með sér að skil­yrði fyrir árangurs­tengdum greiðslum vegna tekna ársins 2019 hafa ekki verið upp­fyllt.

„Við fórum í stóra ferð um heiminn á síðasta ári og heim­sóttum staði þar sem stórir hópar EVE On­line spilara búa. Við náðum nokkrum stórum á­föngum í fram­þróun og stefnu­mörkun CCP og árið 2020 virðist ætla að verða stórt í sögu fyrir­tækisins.

Við erum að upp­lifa gríðar­legan not­enda­vöxt á sama tíma og við eigum enn stærstu trompin eftir á hendi. Þegar EVE Echoes og EVE On­line verða gefnir út í Kína á þessu ári, þá mun það bæði færa okkur nýja tekju­strauma og fót­spor EVE-heimsins verður lík­lega orðið marg­falt stærra en það var áður en við fórum í þessa sókn til Asíu og hófum að gefa leikinn út á far­síma,“ er meðal annars haft eftir Hilmari Veigari Péturs­syni, for­stjóra CCP í til­kynningunni.

Einnig kemur fram í til­kynningunni að CCP muni í næsta mánuði flytja alla starf­semi sína á Ís­landi í nýjar sér­hannaðar höfuð­stöðvar í Vatns­mýrinni. CCP mun flytja í hús sem ber nafnið Gróska og er það hannað með­þarfir skapandi iðnaðar í huga og flutninga fyrir­tækisins þangað gefa kost á sterkari tengingu CCP við há­skóla­sam­fé­lagið.