Ef frambjóðendur lofa útgjöldum þá þarf að finna út hvernig eigi að borga. Það er einungis um tvennt að velja: Skattar eða meiri skuldsetning. Þetta sagði Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur og dósent við Háskólann í Reykjavík í Speglinum á Rás 1.
„Ef þú ætlar að auka útgjöld þá verður þú að horfast í augu við það. Það er annað hvort meiri skattlagning eða meiri skuldsetning,“ sagði Katrín er Spegilinn ræddi við hana um hvers mætti vænta í efnahagsmálum landsins á næstu misserum.
Katrín sagði einnig að það hafði gengið betur að vinna úr efnahagsáfallinu í kjölfar kórónuveirufaraldursins en flestir þorðu að vona meðal annars vegna aðgerða sem voru „til í farteskinu“ frá síðustu kreppu.
„Það var ekki það langt frá henni þannig það var hægt að fara í það án mikils undirbúnings þannig það hjálpaði töluvert. Auðvitað eru engar fyrirmyndir fyrir þessari kreppur en miðað við allt held ég að þetta hafi gengið betur en flestir þorðu að vona,“ sagði Katrín.
Hún sagði að svo framarlega að það komi ekki nýtt afbrigði mættu Íslendingar vænta þess að ná efnahagslega bata.
„Við sjáum að hagvöxturinn er farinn að taka við sér. Við erum að horfa á atvinnuleysið lækka en við getum hins vegar búist við því að verðbólga verði áfram við efri mörk verðbólgumarkmiðsins“
Mismunandi áherslur flokka varðandi útgjaldaliði
Spurð um hvort flokkarnir séu með mjög mismunandi áherslur í efnahagsstjórnun, svaraði Katrín því játandi.
„Það er að einhverju leyti mismunandi áherslur já. Við sjáum togast á annars vegar umræðan um aukin útgjöld, sérstaklega í heilbrigðismálum, svo eru það velferðarmálin og svo náttúrulega umhverfismálin. Á hinn boginn sjáum við meira svona hægra megin að þar er er verið að ræða skuldastöðu ríkissjóðs. Auðvitað hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla í ár og í fyrra vegna Covid og skuldirnar aukist mjög hratt. Þar er áhersla á að forgangsraða eða skera niður.“
„Það er líka verið að ræða aukna skattheimtu á móti auknum útgjöldum á vinstri vængnum þannig það eru aðeins mismunandi áherslur. En ég í held að þessum kosningum muni það vera velferðarmálin og heilbrigðismálin sem muni skipta mestu máli,“ sagði Katrín og bætti við að þetta væru útgjaldamálaflokkar.

„Annað hvort meiri skattlagning eða meiri skuldsetning“
Spurð um loforð stjórnmálaflokka sagðist hún upplifa að flokkar væru að freista fólki með beinum peningagreiðslum.
„Það eru allskyns loforð í gangi. Sumir vilja skattleggja hátekjufólk meira. Aðrir vilja greiða okkur beint arð af bönkum og síðan er verið að tala um að tengja krónuna við evru. Það eru svona ýmis loforð í gangi sem geta haft áhrif beint í vasa okkar einstaklingana. Stundum finnst manni eins og það sé verið að freista fólks með beinum greiðslum.“
Hún var síðan að lokum spurð hvort henni fyndist frambjóðendur trúverðugir þegar þeir útskýra tekju- og útgjaldaliði og sagði Katrín að það væri mjög misjafnt.
„Ef þú ætlar að auka útgjöld þá verður þú að horfast í augu við það. Það er annað hvort meiri skattlagning eða meiri skuldsetning. Svo er það spurningin hvernig ætlar þú að ná í meiri skattgreiðslur. Við erum með svokallað „progressift" skattkerfi, tekjuskattskerfi þar sem lægra launaðir borga hlutfallslega minna og hærra launaðir hlutfallslega meira. Þessum hlutföllum er alltaf hægt að breyta í skattkerfinu og umræðan núna snýst að hluta til um það,“ sagði Katrín að lokum.