Mikið óveður var í Færeyjum í gær sem olli því að skip Royal Artic Line, sem er í samsiglingu með Eimskip, losnaði frá hafnarbakka í Þórshöfn í nótt. Skipið, Tukuma Arctica, færðist til í höfninni og skorðaðist við hinn enda hafnarinnar. Skipið er eitt af þremur skipum í samsiglingum Eimskips og hins grænlenska Royal Arctic Line, en hin tvö eru í eigu Eimskips.

Áhöfnin var um borð í skipinu þegar að það losnaði frá hafnarbakka. Engin slys urðu á fólki og engar skemmdir á farmi. Þá eru engar vísbendingar um olíuleka.

Edda Rut Björnsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Eimskips segir í samtali við Fréttablaðið að búið sé að færa skipið aftur að hafnarbakka og byrjað er að vinna við að losa skipið, það er farminn sem er um borð.

„Áhöfnin vinnur nú að því að skoða skemmdir til að meta framhaldið. Við erum í samstarfi við Artic Line en þetta er eina skipið sem er í eigu þeirra, við eigum hin tvö. Í öllum siglingum eigum við tvo þriðja af farminum um borð en þeir einn þriðja."

Eimskip tók í notkun nýtt gámasiglingakerfi um miðjan október sem leysti af hólmi það sem sett var á í vor vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Félagið fær afhendan nýjan Brúarfoss í vikunni sem er það seinna af tveimur nýjum skipum félagsins sem verið hafa í smíðum í Kína, en þriðja skipið var afhent samstarfsaðilum hjá Royal Arctic line.