Umtalsvert fé mun að líkindum streyma á hlutabréfabréfamarkað í ljósi þess að fyrirtæki í Kauphöll munu greiða hluthöfum samanlagt um 48,9 milljarða, samkvæmt samantekt Markaðarins. Sérfræðingar slá á að arðgreiðslur og endurkaup verði svipuð að umfangi og selt verður í hlutafjárútboðum við skráningu Íslandsbanka og Síldarvinnslunnar í Kauphöllina.

Fyrirtæki í Kauphöllinni munu greiða hluthöfum 19,5 milljarða króna í arð á næstunni, 9,7 milljarðar munu renna í hendur hluthafa með lækkun hlutafjár og fyrirtækin stefna á að kaupa eigin bréf fyrir um 19,7 milljarða króna á árinu.

Mun hærri fjárhæðir en áður

Mogens Gunnar Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, segir að um sé að ræða mun hærri fjárhæðir en áður. „Undanfarin ár hafa arðgreiðslur og endurkaup numið í kringum 30 milljörðum á ári, ef frá er talið árið 2019 þegar fjárhæðin var ríflega 40 milljarðar,“ segir hann.

„Helsta ástæðan fyrir hærri útgreiðslum á árinu 2021 er að eigið fé safnaðist upp hjá fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum á árinu 2020 vegna tilmæla frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans“

„Helsta ástæðan fyrir hærri útgreiðslum á árinu 2021 er að eigið fé safnaðist upp hjá fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum á árinu 2020 vegna tilmæla frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans um að greiða ekki út arð eða kaupa eigin bréf. Þetta var gert til að tryggja sterka eiginfjárstöðu vegna efnahagslegrar óvissu tengda COVID. Í ársbyrjun 2021 var svo létt á þessum hömlum sem gerði félögunum mögulegt að hefja aftur útgreiðslur til hluthafa innan ákveðinna marka. Arion banki var snöggur til að tilkynna um 15 milljarða endurkaupaáætlun og ætlar auk þess að greiða þrjá milljarða í arð, svo hann hreyfir nálina duglega. Þá má einnig nefna að Síminn er að greiða óvenjumikið út til hluthafa nú, eða um 9 milljarða, til að bæta hjá sér fjármagnsskipanina. Arðgreiðslur og endurkaup eru á heildina litið að vaxa um hátt í 50 prósent á milli ára,“ segir Mogens Gunnar.

Mogens Gunnar Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum.
Mynd/Aðsend

Óðinn Árnason, sjóðsstjóri hlutabréfasjóða hjá Stefni, segir að á undanförnum árum hafi skráð fyrirtæki í Kauphöll aukið greiðslur og endurkaup eigin bréfa. „Oft hefur arðgreiðslum verið fjárfest að stórum hluta til aftur á hlutabréfamarkaðinn. Hlutabréfaverð hefur þannig stundum átt tilhneigingu til að hækka í lok mars og byrjun apríl þegar arðgreiðslur berast hluthöfum og þeim hefur verið endurfjárfest aftur á markaðinn. Fyrirtækin sem skráð eru í Kauphöllina komu flest nægjanlega vel út úr COVID-19 til að geta greitt út arð,“ segir hann.

Alma selt á ellefu milljarða

Nýverið var gengið frá sölu á íbúðaleigufélaginu Ölmu fyrir ellefu milljarða til fjölskyldunnar sem meðal annars á heildverslunina Mata. Reikna má með að talsverður hluti af þeirri fjárhæð renni á hlutabréfamarkaðinn, að því er sérfræðingar á markaði telja, en helstu hluthafar voru félög tengd Guðbjörgu Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, tryggingafélögin TM, Sjóvá og VÍS.

Mogens Gunnar segir öruggt að hluti af þeim fjármunum sem skráð fyrirtæki greiða út til hluthafa leiti aftur inn á hlutabréfamarkaðinn. Hlutabréfasjóðir muni flestir fjárfesta aftur þeim fjármunum sem þeir fá í hendurnar en meiri óvissa ríki um hvernig lífeyrissjóðir ráðstafi sínum greiðslum. Þó megi vænta að töluverðum hluta þess verði endurfjárfest á hlutabréfamarkaði. „Þá er töluvert erlent eignarhald í Marel og að einhverju marki Arion banka og því mun hluti þeirra arðgreiðslna renna í vasa erlendra fjárfesta. Engu að síður ættu arðgreiðslur og endurkaup að glæða markaðinn lífi á komandi vikum og mánuðum og koma sér vel ef verður af tveimur fyrirhuguðum nýskráningum næsta sumar, Íslandsbanka og Síldarvinnslunni,“ segir hann.

Lífeyrissjóðir endurfjárfesti að hluta

Óðinn segist telja lífeyrissjóðir muni endurfjárfesta hluta af þeim arðgreiðslum sem þeir fá á íslenska hlutabréfamarkaðnum á nýjan leik. „Hlutfall innlendra hlutabréfa af eignasafni lífeyrissjóða hefur hækkað að undanförnu. Það er því spurning hvaða augum þeir líta hlutföllin í eignasöfnum sínum,“ segir hann.

Óðinn segir að almennt séu arðgreiðslur stöðugar hjá skráðum fyrirtækjum en umfang kaupa á eigin bréfum óreglulegra og nýtt til dæmis til að gera breytingar á fjármagnsskipan félaganna.

Óðinn Árnason, sjóðsstjóri hlutabréfasjóða hjá Stefni.
Mynd/Aðsend

Hlutabréfavísitalan OMXI10 hefur hækkað um 11 prósent það sem af er ári og um 57 prósent á einu ári. Stýrivextir eru lágir eða 0,75 prósent en verðbólga mælist 4,1 prósent. Af þeim sökum hefur fjármagn færst úr innistæðum og skuldabréfum. „Þrátt fyrir að hlutabréfamarkaðurinn hafi hækkað hratt á skömmum tíma er gert ráð fyrir því að hlutabréfaverð geti hækkað áfram í ljósi þess hve vaxtastigið er lágt. Umtalsverður hluti sparnaðar almennings er enn fjárfestur í lágvaxtaeignum og má áfram gera ráð fyrir eignatilfærslu að einhverju marki yfir í áhættumeiri eignir eins og hlutabréf,“ segir Mogens Gunnar.

„Við væntum þess að fleiri erlendir fjárfestar muni við það fjárfesta í auknum mæli í íslenskum hlutabréfum.“

Óðinn segist telja að innlend hlutabréf muni halda áfram að vera nokkuð sterk. Í ljósi lágra vaxta megi vænta þess að fjármagn haldi áfram að leita að betri ávöxtun í hlutabréfum auk þess sem arðgreiðslur hafi sögulega stutt við hlutabréfaverð. Þá styttist í að íslenski hlutabréfamarkaðurinn fari í vísitölumengi MSCI, eins stærsta vísitölufyrirtækis í heimi. „Við væntum þess að fleiri erlendir fjárfestar muni við það fjárfesta í auknum mæli í íslenskum hlutabréfum. Jafnvel þótt einhverjir erlendir fjárfestar hafi selt á undanförnum misserum hlutabréf sín, enda um mjög ólíka fjárfesta að ræða,“ segir hann.

Arðgreiðslur gætu aukist á árinu 2021

Mogens Gunnar segir að mögulega muni arðgreiðslur fyrirtækja á árinu aukast. „Arion banki og tryggingafélögin, einkum Sjóva, hafa umtalsvert svigrúm til að greiða hluthöfum arð. Fjármálafyrirtæki eru háð skilyrðum Fjármálaeftirlits Seðlabankans um hve mikinn arð má greiða. Þau skilyrði verða endurskoðuð í haust.

Þrátt fyrir að Sjóvá muni greiða 2,7 milljarða króna í arð verður fjárhagslegur styrkur félagsins áfram mikill. Tryggingafélagið getur greitt um tvo til þrjá milljarða til hluthafa en samt sem áður verði gjaldþolshlutfallið innan þeirra marka sem stjórn hefur ákveðið. Gjaldþolshlutfallið verður 1,67 eftir fyrirhugaða arðgreiðslu en samkvæmt lögum skal það ekki vera lægra en einn.“ Gjaldþolshlutfall mælir getu fyrirtækja til að greiða langtímaskuldbindingar og vexti.

Kvika og TM munu bíða með að greiða arð á meðan unnið er að sameiningu félaganna. „Sameinað félag gæti því greitt arð þegar líða tekur á árið,“ segir hann.