Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Miðvikudagur 14. október 2020
07.00 GMT

Gagnaverið Verne ­Global, sem staðsett er á Reykjanesi, hefur vaxið að meðaltali um 30 prósent á ári frá árinu 2012, segir Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Verne Global á Íslandi.

Hann segir: „Verulegar líkur eru á að gagnaverið haldi áfram að stækka,“ og byggt verði við það á næsta ári. Eftirspurnin sé til staðar.

„Gagnaverið er orðið býsna stórt. Þegar lokið verður við yfirstandandi stækkun eftir um það bil tvo mánuði verður til samanburðar stærð gagnavers Verne Global um það bil 15 sinnum stærð gagnaversins við Korputorg í Reykjavík, sem sinnir einkum innanlandsmarkaði. Stóran hluta gagnaflutninga til og frá landinu okkar má rekja til okkar viðskiptavina,“ segir Helgi.

Fjögurra milljarða stækkun

Nýlega var upplýst um að verja ætti 27 milljónum dala, jafnvirði 3,7 milljarða króna, til að stækka gagnaverið. „Hér er því um tugmilljarða heildarfjárfestingu að ræða og afar spennandi næsta áfanga í stækkun gagnaversins sem knúin er áfram af eftirspurn frá nýjum og núverandi viðskiptavinum,“ segir hann.

Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Verne Global á Íslandi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fjárfestingafélagið General Catalyst, sem kom fótunum undir tölvuleikjafyrirtækið CCP, var fyrsti kjölfestufjárfestir Verne Global, ásamt Novator. Wellcome Trust, sem er góðgerðarsjóður á sviði heilbrigðisrannsókna með aðsetur í London, er nú stærsti hluthafinn en sjóður á vegum Stefnis, dótturfélags Arion banka, sem fjármagnaður er af lífeyrissjóðum, er einnig á meðal hluthafa.

Helgi segir að gagnaver reki innviði á borð við fasteignir, kæli- og rafkerfi. „Við hvorki eigum né rekum tölvubúnað viðskiptavina,“ segir hann og bætir við að viðskiptavinir kaupi nettengingar af þeim sem bjóði slíka þjónustu. „Við stöndum fyrir utan það. Það skiptir þó öllu máli að hafa góðar nettengingar til og frá landinu. Án þeirra væru engir viðskiptavinir.“

Aðspurður segir hann að tölvubúnaður viðskiptavina sé almennt afskrifaður á þremur til fimm árum.

Hugmyndin frá CCP

Að sögn Helga vaknaði hugmyndin að rekstri alþjóðlegs gagnavers á Íslandi innan veggja CCP, þar sem General Catalyst var stór hluthafi. „Það hefur tekið tíma að ýta rekstrinum úr vör,“ segir Helgi. Undirbúningur hófst árið 2007 en fjármálahrunið 2008 gerði það að verkum að uppbyggingin fór ekki á „fullt skrið“ fyrr en árið 2011 þegar hafist var handa við að reisa fyrsta áfanga gagnaversins. Starfsemin hófst í ársbyrjun 2012.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, er í hluthafahópi Verne Global.
Fréttablaðið/GVA

Helgi, sem starfað hefur hjá Verne Global frá árinu 2008, segir að í upphafi hafi tilbúin gagnaverslausn verið keypt. Það var talið áhættuminnst, enda hafði ekki verið reist jafnstórt gagnaver á Íslandi áður. „Það var hannað og smíðað í Bretlandi og sett saman á Íslandi. Það virkaði í sjálfu sér ágætlega, en það var ekki hannað miðað við íslenskar aðstæður heldur breskar.“

Hvaða vanda skapaði það?

„Vandinn lýtur fyrst og fremst að kælingunni. Það er ekki verið að færa sér í nyt hve kalt er á Íslandi. Veðurfarið á Íslandi er nefnilega ákjósanlegt fyrir stór gagnaver. Hérlendis er hvorki sérstaklega heitt á sumrin né of kalt á veturna. Víða erlendis er meiri breytileiki í veðurfari, til dæmis á Norðurlöndunum verður mun heitara á sumrin og mun kaldara á veturna. Þessi breytileiki gerir það að verkum að hafa þarf yfir að ráða innviðum sem geta tekist á við öfgar í loftslagi. Því fylgir umtalsverður viðbótarkostnaður við kaup á búnaði sem viðskiptavinir verða að standa undir.“

Sparar 20-30 prósent

Hvað sparar íslensk veðrátta gagnaverum mikið fé?

„Ef til vill sparar það um 20-30 prósent af fjárfestingu í tækjabúnaði. Það getur skipt verulegu máli enda er um stórar fjárhæðir að ræða við slík kaup. Erlendis rennur auk þess stór hluti af rafmagnskaupum í að knýja kælikerfi.“

Fyrstu tvö árin í rekstri Verne Global voru keyptar tilbúnar tæknilausnir. „Það helgaðist að stórum hluta af því að viðskiptavinir okkar treystu umræddum lausnum. Undanfarin fimm ár höfum við nýtt sérhannaðar lausnir sem færa sér í nyt þær aðstæður sem hér eru fyrir hendi.“

Verne Global á tvær skemmur á gamla varnarsvæðinu á Reykjanesi. Önnur er um 10 þúsund fermetrar og hin nær 13 þúsund fermetrar að grunnfleti. „Við erum að klára annan áfanga af þremur í seinni byggingunni. Að framkvæmdum loknum mun starfsemin þekja um 20 þúsund fermetra. Hún tekur umtalsvert pláss en salirnir sem hýsa tölvubúnað eru einungis hluti af þessu. Kælikerfin taka mikið pláss og svo erum við með vinnusvæði.“

Ekki eins og álver

Helgi segir að gagnaver sé ekki eins og álver. „Það er ekki hægt að reisa gagnaver, þrýsta á hnapp og allt fer á flug. Álagið og umsvifin aukast jafnt og þétt. Viðskiptavinir leigja til dæmis fyrst einn sal en fylla hann ekki samstundis af tækjabúnaði heldur vaxa inn í rýmið á einhverjum tíma. Loks kemur að þeim tímapunkti að þeir verða að leigja annan sal. Það hefur verið þróunin hjá okkur, viðskiptavinir vaxa með okkur.“

Verne Global á tvær skemmur á gamla varnarsvæðinu á Reykjanesi. Önnur er um 10 þúsund fermetrar og hin nær 13 þúsund fermetrar að grunnfleti.
Fréttablaðið/Pjetur

Öryggi gagnavera skiptist í fjóra flokka, frá einum upp í fjóra. Mesta öryggið felst í fjórum. „Verne er Tier 3 og sum tækin nálgast Tier 4. Fáir byggja allra öruggustu gagnaverin, þau eru einkum nýtt til að gæta hernaðarlega mikilvægra gagna. Við getum tekið kerfi úr notkun án þess að það bitni á rekstri viðskiptavina. Það er gert til að tryggja rekstraröryggi þeirra. Það þýðir að keypt eru kerfi sem eru ekki nýtt nema þörf krefur.“

BMW og VW

Hvernig eru viðskiptavinir ykkar?

„Sumir eru þekkt stórfyrirtæki og get ég nefnt BMW og Volkswagen í því samhengi. BMW hefur verið með okkur nánast frá upphafi. Bílaframleiðendurnir nýta ofurtölvur í gagnaverinu til að gera árekstrarprófanir og loftflæðislíkön.

Á meðal annarra viðskiptavina má nefna fjármálastofnanir, fyrirtæki í líftæknirannsóknum og fyrirtæki sem þróa gervigreind.

Öll þessi starfsemi krefst mikils reikniafls. Þess vegna er gagnaver í raun villandi nafn, enda hverfist starfsemin ekki nema að litlu leyti um að hýsa gögn, heldur er um að ræða fjölda ofurtölva með gríðarlegt reikniafl.“

„BMW hefur verið með okkur nánast frá upphafi,.“ segir Helgi.

..Eru margir viðskiptavinir að grafa eftir rafmyntum?

„Einhverjir viðskiptavinir eru af þeim toga en það hefur aldrei verið í brennidepli hjá okkur að sinna þeim. Slíkum viðskiptavinum fer hægt og bítandi fækkandi. Við einblínum á stór, alþjóðleg fyrirtæki, það er kjarninn af okkar viðskiptavinum. Þar liggur okkar áhersla.“

Hvers vegna viljið þið ekki þjónusta þá sem eru að grafa eftir rafmyntum í miklum mæli?

„Í því er fólgin áhætta sem okkur hugnast ekki.“

Aðspurður segir Helgi að greiðslugeta fyrirtækja í námugreftri fylgi oft verðþróun á rafmyntum sem sveiflist.

Langir samningar

Allur heimurinn er undir hjá erlendum viðskiptavinum. Til hvers horfa þeir þegar þeir hefja viðskipti við ykkur?

„Það má segja að viðskiptavinir horfi til tveggja þátta. Annars vegar leggja þeir ríka áherslu á að raforka er framleidd með vistvænum hætti á Íslandi. Hins vegar er Verne Global með langtímasamninga um kaup á raforku frá Landsvirkjun, sem hefur lagt sig fram við að skilja markaðinn sem við störfum á og brugðist við breyttum aðstæðum. Í því felst samkeppnisforskot sem skiptir okkur verulegu máli. Keppinautar okkar eiga erfitt með að bjóða viðskiptavinum langtímasamninga um verð, því annars staðar í heiminum sveiflast verð á rafmagni eftir aðstæðum á markaði. Verðið er til dæmis ekki hið sama á sumrin og veturna. Við getum hins vegar sagt okkar viðskiptavinum hvað kílóvattsstundin muni kosta eftir tíu ár. Það geta keppinautar okkar ekki. Viðskiptavinir sækjast eftir þessum stöðugleika, því þeir vilja vita hver kostnaður er til lengri tíma.“

Verður þú ekkert óánægður þegar rafmagn er ódýrara í Svíþjóð og Noregi en á Íslandi?

„Við viljum að sjálfsögðu að vera samkeppnishæfir í verðum alla daga, en Landsvirkjun hefur verið á tánum og brugðist við breyttum aðstæðum. Rafmagn og dreifing er stór hluti af rekstrarkostnaði viðskiptavina. Verð nettenginga er einnig stór hluti af þeim kostnaði.“

Skoðað rekstur erlendis

Hafið þið horft til þess að opna gagnaver á hinum Norðurlöndunum?

„Við höfum horft út fyrir landsteinana. Sumir viðskiptavinir hafa verið það ánægðir með þjónustuna og hafa því viljað vinna með okkur á breiðari grundvelli. Við erum alltaf að skoða slík tækifæri en það hefur ekkert orðið af því.“

Hvar annars staðar í heiminum þykir gott að reka gagnaver?

„Á hinum Norðurlöndunum. Veðrið er hagstætt í þeim löndum þótt það sé ekki eins hagstætt og á Íslandi. Við það verður kostnaður við kælingu lægri.

Danmörk hefur til að mynda komið sterk inn á þessum vettvangi. Stórfyrirtæki á borð við Apple hafa byggt gagnaver í Danmörku. Stjórnvöld þar í landi hafa unnið markvisst að því að laða gagnaver til landsins með skýrri stefnumörkun, skattalækkunum og fleiri þáttum.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins,

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í viðtali við Kjarnann í haust að Google hefði nýlega staðfest að fyrirtækið ætlaði sér að ráðast í starfsemi í Danmörku sem myndi skila um 740 milljónum evra inn í danskt hagkerfi á uppbyggingartímanum og 80 milljónum evra á ári eftir það. Ísland gæti að hans mati verið að sækja svona tækifæri.

Á Íslandi eru einungis þrjú önnur gagnaver í rekstri: Advania Data Centers, Reykjavík Data Centers og Etix á Blönduósi.

Hvað gæti ríkið gert til að auðvelda ykkur að laða að viðskiptavini?

„Það þarf að auðvelda viðskiptavinum að flytja inn tækjabúnað, tryggja samkeppnishæf verð í raforku og nettengingum. Fylgjast þarf vel með breytingum á mörkuðum og aðlagast þeim. Það er eftir miklu að slægjast enda myndi rekstur gagnavera skjóta annarri stoð undir hagkerfið. Starfsemin skapar góð og örugg störf. Auk þess er það jákvætt að ekki þarf að virkja til að knýja gagnaver. Það þarf ekki að stífla stóra dali eða hálendi fyrir reksturinn. Þetta er því góð viðbót við efnahagslífið á Íslandi.“

Er rekstur Verne Global farinn að standa undir sér?

„Reksturinn er farinn að standa undir sér. Hann skilar hagnaði fyrir skatta, fjármagnsliði og skatta (EBITDA). Reksturinn batnar eftir því sem við stækkum. Það er talsverð stærðarhagkvæmni fólgin í rekstrinum. Starfsmenn eru á vakt allan sólarhringinn til að aðstoða viðskiptavini ef á þarf að halda. Það er því töluverður fastur kostnaður sem fylgir rekstrinum.“

30 starfsmenn á Íslandi

Hvað starfa margir hjá Verne Global?

„Á Íslandi eru tæplega 30 starfsmenn sem annast rekstur gagnaversins. Til viðbótar þjónustar fjöldi manns tækjabúnað viðskiptavina. Það eru nánast öll helstu tölvufyrirtæki landsins sem koma að því með einum eða öðrum hætti. Til að veita innsýn í þá stærðargráðu má nefna að við höfum gefið út 1.500 til 2.000 aðgangskort til verktaka sem þjónusta viðskiptavini okkar. Sá fjöldi er fyrir utan alla gesti sem hingað koma af ýmsum ástæðum.“

Hvaða starfsemi er erlendis á vegum Verne Global?

„Móðurfélagið er breskt. Við einblínum á að þjónusta erlenda viðskiptavini, einkum í Evrópu og þess vegna er sölustarfsemin erlendis. Fjármálasviðið er líka í Bretlandi.“

Aðspurður segir hann hluta af skýringunni á að viðskiptavinir séu einkum í Evrópu en ekki í Norður-Ameríku, að nettengingin frá Íslandi til Evrópu sé mun hraðari en til Bandaríkjanna.

Aldrei meira að gera

Hvaða áhrif hefur COVID-19 haft á rekstur Verne Global?

„Það hefur aldrei verið meira að gera hjá okkur en frá því að kóróna­veiran blossaði upp. Viðskiptavinir ferðast nú ekki til landsins til að sinna tölvubúnaði sínum og því höfum við tekið að okkur að sinna þeim verkefnum í meira mæli. Við það geta viðskiptavinir sparað kostnað við ferðalög.“

„Til að veita innsýn í þá stærðargráðu má nefna að við höfum gefið út 1.500 til 2.000 aðgangskort til verktaka sem þjónusta viðskiptavini okkar,“ segir Helgi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fagnar netstreng til Írlands

„Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi ákveðið í haust að leggja netstreng til Írlands. Í því felst aukið rekstraröryggi fyrir okkar viðskiptavini. Við það verða þrír gagnastrengir til landsins. Í raun fjórir ef við teljum strenginn til Grænlands með,“ segir Helgi.

„Fram að þessu hefur vandinn ekki lotið að flutningsgetu strengjanna heldur einkum að rekstraröryggi þeirra. Nú eru tveir strengir frá Íslandi, annar til Skotlands og hinn til Danmerkur, og þeir eru ekki fullnýttir. Aftur á móti er áhætta í því fólgin ef annar bilar. Jafnframt má nefna að eldri strengurinn er kominn á tíma vegna aldurs.

Kosturinn við það að leggja streng til Írlands er að við það færist Ísland nær Dublin, en þar er klasi af gagnaverum. Sum þeirra eru á vegum Amazon og Microsoft. Tengingin hjálpar okkur að selja þjónustuna og hún styttir leiðina til Bandaríkjanna. Eftir því sem gögn þurfa að ferðast um styttri vegalengd, því hraðari er tengingin. Nú er ekki bein tenging við Bandaríkin og það hefur hamlað okkur að hluta til að selja til Bandaríkjanna.“

Helgi segir að viðskiptavinir horfi til tveggja þátta þegar horft sé á netstrengi, annars vegar rekstraröryggis og hins vegar kostnaðar. „Við erum í veikri stöðu þegar horft er til kostnaðar enda er Ísland eyja á miðju Atlantshafi. Þess vegna verður flutningskostnaður hérlendis meiri en á meginlandi Evrópu.“

Athugasemdir