Kínversk fyrirtæki hafa í miklum flýti tryggt stjórnendur sína fyrir mögulegum málsóknum í kjölfar þess að blásið var til sóknar gegn ólögmætum viðskiptaháttum. Metfjöldi kínverskra fyrirtækja sem skráð eru í kauphöll hafa sagt að þau muni kaupa tryggingar á árinu handa stjórnendum og stjórnarmönnum, ef það komi til þess að þeir sæti málsóknum af hálfu hluthafa eða viðskiptavina.

Eftirlitsaðilar í Kína, sem er annað stærsta hagkerfi í heimi, hafa sett aukinn slagkraft í vinnu sína og refsað næstum 300 fyrirtækjum sem skráð eru á hlutabréfamarkað, á fyrstu fjórum mánuðum ársins, fyrir brot á borð við bókhaldssvik og innherjaviðskipti, segir í frétt Financial Times.

Tekjur Luckin Coffee falsaðar

Stjórnarhættir kínverskra fyrirtækja hafa verið í kastljósinu á undanförnum vikum eftir að í ljós kom að kaffihúsakeðjan Luckin Coffee falsaði tekjur sínar stórkostlega. Fyrirtækið er skráð í kauphöll í New York og átti að verða hið kínverska Starbucks.

Verðbréfalögum var breytt í mars á þá vegu að kínversk fyrirtæki urðu að upplýsa fjárfesta með betri hætti og var fjárfestum gert auðveldara um vik að hefja málsóknir gegn stjórnendum þeirra.

Opinber gögn leiða í ljós að 72 fyrirtæki skráð í Shanghai og Shenzhen hafa í hyggju að kaupa tryggingar fyrir stjórnarmenn og stjórnendur. Í fyrra keyptu 29 fyrirtæki slíkar tryggingar.

Nýju lögin gera það að verkum að kínversk fyrirtæki þurfa að greiða mun hærri sektir fyrir að blekkja fjárfesta, til dæmis í tengslum við hlutafjárútboð. Lögin gera einnig hluthöfum kleift að standa saman að málsóknum gegn skráðum fyrirtækjum.

„Stjórnendur okkar standa frammi fyrir mun meiri áhættu eftir að nýju verðbréfalögin tóku gildi,“ segir stjórnandi hjá fyrirtæki sem keypti stjórnendatryggingu.

Aukin eftirspurn hjá tryggignafélögum

Tryggingafélög hafa notið góðs af þessu. Fyrirspurnir um stjórnendatryggingar hafa aukist um 50 prósent hjá einu þeirra. „Það er aukin eftirspurn eftir því að stýra áhættu,“ segir fyrrnefndur stjórnandi.

Aðrir spyrja hvort fyrirtækin hafi keypt tryggingu til þess eins að halda áfram að leggja stund á ólöglegt athæfi. Meira en helmingur fyrirtækjanna sem keyptu nýjar stjórnendatryggingar höfðu verið sektuð eða gagnrýnd opinberlega af eftirlitsaðilum á undanförnum tólf mánuðum.

Vefverslunin Global Top E-Comm­erce keypti slíkar tryggingar í apríl eftir að hafa verið sökuð um innherjaviðskipti og að ýkja hagnað fyrirtækisins. „Við viljum vernda stjórnendur okkar,“ segir stjórnandi hjá fyrirtækinu.

Tryggingafélög benda á að ekki sé hægt að tryggja sig fyrir málsóknum ef brotin eru gerð vísvitandi. Stjórnendatryggingar muni því ekki koma að neinu gagni ef stjórnendur verða uppvísir að því að hafa af ásettu ráðið stýrt fyrirtækjunum með svikum og prettum.