Responsible Foods, sem hefur þróað heilsunasl undir vörumerkinu Næra, hefur lokið fjármögnun upp á vel á annað hundrað milljóna króna. Mjólkursamsalan, Lýsi og Ó. Johnson og Kaaber eru á meðal þeirra sem tóku þátt í fjármögnuninni en síðastnefnda félagið mun einnig sjá um dreifingu á vörum Responsible Foods hér á landi.

Spakur Finance aðstoðaði félagið við fjármögnunina, eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu, en um er að ræða fyrri hluta fjármögnunar þess.

Að auki fjárfesti hópur einstaklinga í félaginu og má þar meðal annars nefna systurnar Mörtu og Helgu Árnadætur og bræðurna Halldór H. og Jón Gunnar Jónssyni.

Responsible Foods var stofnað í fyrra af Dr. Holly T. Kristinsson með það að markmiði að umbylta naslmarkaðnum með nýju heilsunasli sem fyrirtækið hefur þróað undir vörumerkinu Næra.

„Fyrirtækið notar brautryðjandi tækni sem gerir það mögulegt að þurrka matvæli og önnur hráefni hraðar og við lægra hitastig en áður hefur verið hægt. Með þessari tækni er hægt að framleiða vörur sem eru með mjög hátt næringargildi og langt geymsluþol. Allar vörur fyrirtækisins byggja á íslensku hráefni,“ segir í tilkynningunni.

Þar er auk þess tekið fram að mikill árlegur vöxtur sé á nasli sem teljist „lítið unnið“ og munu vörur Responsible Foods fara inn á þann markað.

Félagið er nú að leggja lokahönd á að setja upp framleiðslu á Næra-vörunum í húsnæði Sjávarklasans og mun setja fyrstu vörur á markað á Íslandi snemmsumars á þessu ári. Meginþorri framleiðslunnar mun fara á erlendan markað, sér í lagi á Bandaríkjamarkað, en Holly er sögð hafa umfangsmikla þekkingu og reynslu á þeim markaði þar sem hún hafi áður unnið fyrir stór matvæla- og innihaldsefnafyrirtæki.

„Holly, sem ólst upp í Alaska, kolféll fyrir íslensku hráefni og mat þegar hún flutti til Íslands 2015. Hún sér einstök tækifæri á að koma íslenskum afurðum á markað erlendis í öðru formi en áður hefur verið gert. Eitt af meginmarkmiðum Responsible Foods er að hagnýta íslenskt hugvit íslensku samfélagi og efnahagi til góða. Fyrirtækið áætlar að ráða á þriðja tug starfsmanna í fjölbreytt störf á næstu árum.

Fyrirtækið leggur áherslu á að auka útflutningsverðmæti meðal annars íslensks fisks og mjólkurvara með tækni sinni og mætir vaxandi eftirspurn eftir íslenskum afurðum á erlendum mörkuðum,“ segir jafnframt í tilkynningu Responsible Foods.