Heildarfjárhæð trygginga sem ferðaskrifstofur þurfa að útvega námu um sjö milljörðum króna samkvæmt nýlegu svari frá Ferðamálastofu. Áður en nýleg lög tóku gildi stóð heildarfjárhæðin í 4,3 milljörðum króna og hefur hún því hækkað um tæpa þrjá milljarða króna. Þetta kemur fram í umfjöllun Markaðarins um tryggingar ferðaskrifstofa.

Ásberg Jónsson, eigandi Nordic Visitor, segir að Evrópulöggjöfin, sem íslensku lögin byggja á, hafi verið skrifuð fyrir ferðaskrifstofur sem flytja viðskiptavini út og aftur heim (e. outbound). Hugmyndin að baki lagagreininni er að tryggja viðskiptavini ferðaskrifstofu þannig að unnt sé að endurgreiða þeim eða flytja þá heim komi til gjaldþrots ferðaskrifstofunnar.

„Á Íslandi snýst starfsemin að miklu leyti um að þjónusta ferðamenn sem koma til landsins og eiga flugmiða til baka (e. inbound). Það hefur aldrei komið til þess að Ferðamálastofa hafi þurft að nýta þessa tryggingu og endurgreiða viðskiptavinum ferðaskrifstofa sem taka á móti ferðamönnum hingað til Íslands,“ segir Ásberg.

Ferðaskrifstofa Harðar Erlingssonar þarf að útvega 140 milljóna króna tryggingu yfir háannatímann en upphæðin var áður um 90 milljónir króna. Hörður segir í samtali við Markaðinn að þýskur samkeppnisaðili með svipaða veltu þurfi einungis að útvega 130 þúsunda evru tryggingu, jafnvirði um 18 milljóna króna, yfir háannatímann. Þannig sé samkeppnisstaða íslenskra ferðaskrifstofa gagnvart erlendum keppinautum verulega skekkt.

Arnar Bjarnason, forstjóri Arcanum – Icelandic Mountain Guides, segir að tryggingarfjárhæð fyrirtækisins hafi meira en þrefaldast eftir að lögunum var breytt.