Greining Jakobsson Capital gerir ráð fyrir því að VÍS mun hagnast meira af tryggingarekstri en fjárfestingum á árunum 2021 til 2024. Landslagið hjá íslensku tryggingafélögum er breytt því þau hafa lengi búið við trygga fjögurra til fimm prósenta nafnvexti. „Fjárfestar verða í auknum mæli að horfa til tryggingarekstrar og hætta að versla með hlutafé tryggingafélaganna eins og um væri að ræða hlutabréfasjóð,“ segir í greiningu sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Jakobsson Capital metur gengi VÍS á 13,4 krónur á hlut. Það er ellefu prósentum hærra en gengið var við lok markaðar í gær.

Hagnaður VÍS fyrir skatta á þriðja ársfjórðungi 2020 nam 1,15 milljörðum króna samanborið við 420 milljóna króna tap á sama tíma fyrir ári. „Sveifla í afkomu milli ársfjórðunga undirstrikar þær miklu sveiflur sem eru í afkomu tryggingafélaga. Horfa þarf til nokkurra ára til að meta rekstur tryggingafélaga. Vísbendingar eru þó um bættan rekstur og dregið hefur úr líkum þess að óvænt matsbreyting muni eiga sér stað,“ segir í verðmatinu.

Afkoma af fjárfestingum verður góð

Afkoma af fjárfestingum VÍS verður afar góð í ár. Gert er ráð fyrir 2,1 milljarðs króna hagnaði af þeim. „Ljóst er þó að horfurnar hafa dökknað,“ segir í verðmatinu, stýrivextir hafi enda lækkað um tvö prósent. Tæplega 70 prósent fjárfestingareigna VÍS eru í skuldabréfum á markaði þar sem raunvextir eru um núll prósent og nafnvextir jafnir verðbólguvæntingum.

„Ljóst er að þróun á vaxtamarkaði mun þvinga tryggingafélög í meiri áhættusækni í fjárfestingum. Afkoma tryggingarekstrar skiptir alltaf meira máli. Tryggingafélög sem hafa ekki arðbæran tryggingarekstur geta lent í vanda,“ segir í greiningu Jakobsson Capital.