Fram undan eru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði og hafa bæði atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin sagt ljóst að þeir verði mjög flóknir og snúið að ná niðurstöðu við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu án markvissrar aðkomu stjórnvalda.

Ætla má að tryggingagjaldið verði eitt af því sem verður á borðinu varðandi aðkomu stjórnvalda. Staðan er þó ekki með öllu einföld fyrir ríkið. Tryggingagjaldið er ætlað til að standa undir margvíslegum réttindum fólks á vinnumarkaði, meðal annars fæðingarorlofi sem nýverið var lengt.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir atvinnurekendur hafa lagt ríka áherslu á að tryggingagjaldið hækki ekki. „Auðvitað er alveg rétt sem fjármálaráðherra hefur haldið fram, að lækkunin var tímabundin og vitað var að á endanum myndi gjaldið hækka aftur. Við höfum hins vegar sagt að þetta kæmi til móts við atvinnurekendur á þessum erfiðu Covid-tímum.“ Halldór segir tryggingagjaldið vera kostnað sem öll fyrirtæki muni um.

„Þetta eru vonbrigði, þvert á okkar væntingar, og við teljum að þetta sé misráðin ráðstöfun hjá fjármálaráðuneytinu. Mér hefði þótt það góð skilaboð inn í íslenskt atvinnulíf frá stjórnvöldum að framlengja lækkunina til dæmis um ár á meðan jafn mörg fyrirtæki og raun ber vitni eru í sárum eftir faraldurinn. Það munar um allt, jafnvel þótt lítið sé,“ segir Halldór Benjamín.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Mynd/Skapti Örn Ólafsson

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir samtökin lengi hafa bent á að rekstrarkostnaður fyrirtækja hér sé orðinn allt of hár miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Launakostnaður og launatengd gjöld séu langstærsti hluti kostnaðar til dæmis í ferðaþjónustunni. Þetta komi illa við fyrirtækin sem standi frammi fyrir launhækkunum í byrjun nýs árs.

„Við höfum bent á að lækkun tryggingagjalds er eitthvað sem skiptir máli varðandi rekstrarumhverfi fyrirtækja. Við hefðum viljað sjá þessa lækkun halda áfram inn á næsta ár og síðan yrði framtíðarfyrirkomulag ákveðið í kringum kjarasamningana í haust.“

Jóhannes telur tækifæri vera til að breyta og bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja. „Við heyrum það bæði hjá stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðunni að mikill vilji stendur til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja á ýmsan máta. Tryggingagjaldið er hluti af því. Á endanum snýr þetta bara að samkeppnishæfni fyrirtækja á Íslandi og þá sérstaklega greinar eins og ferðaþjónustunnar sem er í alþjóðlegri samkeppni.“

Jóhannes segir samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu hafa farið versnandi á sama tíma og talað hafi verið mikið um það í stjórnmálunum að laga rekstrarumhverfið. Mikið hafi verið talað en litlu áorkað.