Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir að reksturinn á nýju ári fari eftir því hvernig tekst til með bólusetningar við COVID-19 og hvaða sóttvarnaráðstafanir verða í gildi. „Ég er bjartsýn og jákvæð að eðlisfari og treysti því að stjórnvöld geri allt sem er í þeirra valdi til að tryggja að bólusetningar gangi hratt og vel fyrir sig,“ segir hún og vekur athygli á að starfsfólk Lyfju hafi verið í framlínunni allt árið.

Hvað gekk vel á árinu 2020?

„Það gekk vel að ryðja nýjar brautir, Lyfja setti á markað fyrsta íslenska snjall apótekið, app sem er meira en vefverslun, um er að ræða sérsniðna þjónustu fyrir hvern og einn viðskiptavin. Með appinu eru upplýsingar um lyf, virkni og notkun aðgengilegar með einum smelli, hægt er að kaupa lyf og fá heimsend á innan við klukkutíma eða sækja í næsta apótek Lyfju. Það má líka spjalla við sérfræðinga Lyfju í appinu og annast lyfjakaup fyrir þá sem ekki geta það sjálfir.

„Við hófum líka að aðlaga verslanir okkar og vöruval að nýrri stefnu á árinu, Lyfja er svo miklu meira en bara apótek.“

Við hófum líka að aðlaga verslanir okkar og vöruval að nýrri stefnu á árinu, Lyfja er svo miklu meira en bara apótek. Ein mest spennandi nýjungin í vöruvalinu okkar er DNA próf frá MyHeritage sem veitir upplýsingar bæði um uppruna og genetíska áhættu á fjölda sjúkdóma. Hjúkrunarþjónusta Lyfju hefur fengið aukið vægi í nýjum verslunum okkar en í Lágmúla, á Smáratorgi og nú síðast á Akureyri geta viðskiptavinir fengið hjúkrunarþjónustu án þess að panta tíma. Hjúkrunarfræðingar Lyfju annast heilsufarsmælingar, bólusetningar, aðstoða við val á vörum og veita þá hjálp sem þarf hverju sinni. Heilsuhúsið er líka orðið hluti af Lyfju, því geta viðskiptavinir fengið náttúrulegar og umhverfisvænar vörur frá Heilsuhúsinu hjá okkur.

Sjálfbærni og samfélag hafa verið okkur hugleikin á árinu, Lyfja gerði samning við Kolvið sem felur það í sér að Kolviður gróðursetur árlega sem samsvarar 2.732 trjám til móts við þau 240 tonn af koldíoxíði sem starfsemin losar á ári. Við tókum í notkun fyrsta lyfjaskilakassann sem er staðsettur í Lyfju á Smáratorgi og verður innan tíðar í fleiri apótekum en örugg lyfjaskil eru eitt mikilvægasta framlag Lyfju til umhverfisverndar. Því miður mælast reglulega efni sem eru talin vera ógn við lífríki og vatnaumhverfi í sýnum Umhverfisstofnunar, við sýnum öll ábyrgð með því að skila ónotuðum lyfjum í apótek til öruggrar eyðingar. Lyfja úthlutaði í fyrsta sinn úr styrktarsjóði sem settur hefur verið á laggirnar, það fengu tíu verkefni sem teljast heilsueflandi og/eða hafa forvarnargildi stuðning á árinu.“

Hvað var krefjandi á árinu sem er að líða?

„Heimsfaraldurinn og afleiðingar hans, við þurftum að innleiða nýtt vinnulag, gera viðbragðsáætlanir og breytingar til þess að tryggja öryggi okkar viðskiptavina og starfsfólks. Við lögðum mikla áherslu á að finna góðar vörur á góðu verði sem nýtast öllum til að verjast veirunni. Það var erfiðast að þurfa á sama tíma að takmarka samskipti og hittast sjaldnar augliti til auglitis. Starfsfólk Lyfju hefur verið í framlínunni allt árið og annast viðskiptavini vel í krefjandi aðstæðum. Ég hef í örfá skipti á ævinni verið jafn stolt af teymi eins og starfsfólki Lyfju á þessu ári.“

Hvernig horfir árið 2021 við þér í rekstrinum?

„Það fer eftir því hvernig tekst til með bólusetningar og hvaða sóttvarnaráðstafanir verða í gildi. Ég er bjartsýn og jákvæð að eðlisfari og treysti því að stjórnvöld geri allt sem er í þeirra valdi til að tryggja að bólusetningar gangi hratt og vel fyrir sig. Við hjá Lyfju höfum boðið fram aðstoð og munum sannarlega ekki láta okkar eftir liggja ef þess verður óskað.

Áhersla á heilbrigði og forvarnir hefur sjaldan verið mikilvægari en líka lágt lyfjaverð um allt land.“