Rekstrarafgangur A og B sjóðs nemur 408 milljónum en áætlun ársins gerði ráð fyrir 135 milljóna rekstrarafgangi. Veltufé frá rekstri er 3,1 milljarður sem er um 15,4 prósent í hlutfalli við rekstrartekjur, en var 14,4 prósent árið 2020.

Afkoman er sögð góð þrátt fyrir að gjaldfærð lífeyrisskuldbinding ársins nemi 932 milljónum vegna verulegra breytinga sem gerðar eru á forsendum útreikninga skuldbindingarinnar að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga. Breytingin felst meðal annars í hækkun á lífslíkum og hækkandi greiðslum sveitarfélagsins til sífellt fleiri sjóðsfélaga sem fá greiðslur úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Betri rekstrarafkoma skýrist fyrst og fremst af hærri rekstrartekjum en áætlun gerði ráð fyrir, einkum hærri útsvarstekjum. Laun og launatengd gjöld námu tæplega 9,2 milljörðum en áætlun gerði ráð fyrir tæplega 9 milljörðum og nemur frávikið um 2,1 prósenti. Önnur rekstrargjöld námu ríflega 7,6 milljörðum en áætlun gerði ráð fyrir 7,6 milljörðum og er frávikið 0,4 prósent.

Gríðarlega miklar framkvæmdir í vaxandi bæ

Lántaka á árinu nam 3,8 milljörðum. Framkvæmt var fyrir 4,8 milljarða og þar af námu framkvæmdir í A hluta tæplega 4,2 milljörðum. Helstu framkvæmdir ársins voru við byggingu Miðgarðs, fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri, og annarra íþróttamannvirkja 2,7 milljarðar., til skólabygginga og lóða var varið 551 milljón, til gatnagerðar, hljóðvistar og stígagerðar 528 milljónir, að teknu tilliti til tekjufærslna gatnagerðartekna og til vatns- og fráveituframkvæmda 614 milljónir, auk fjölmargra annarra smærri verkefna.

Skuldaviðmið nemur 82 prósentum og skuldahlutfall 111 prósentum. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 2 prósent og fjárfesting ársins nam 23,6 prósentum af rekstrartekjum. Veltufjárhlutfall er 0,58 og eiginfjárhlutfall 47,4 prósent. Rekstrarjöfnuður samstæðureiknings á þriggja ára tímabili er ávallt jákvæður.

Íbúar Garðabæjar voru 18.452 þann 1. janúar síðastliðinn og hafði fjölgað um 4,3 prósent frá árinu áður sem er mesta fjölgun meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Stöðugildum fjölgar um 49 milli ára meðal annars vegna nýrra rekstrareininga leikskóla og aukinna verkefna.

Áfram öflug uppbygging í Garðabæ

Traust og sterk fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við fjölgun nýrra íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa.

Á næstu árum verður lokið við byggingu Urriðaholtshverfis, auk þess sem uppbygging í Vetrarmýri og Hnoðraholti hefst. Einnig eru hafnar byggingarframkvæmdir á miðsvæði Álftaness og í Kumlamýri. Áfram verður unnið að uppbyggingu íbúða- og þjónustukjarna fyrir fatlað fólk. Byggingarframkvæmdir við nýjan sex deilda leikskóla í Urriðaholti eru að hefjast, en áætlað er að taka leikskólann í notkun á árinu 2023. Jafnframt er nú unnið að því að koma upp færanlegum húseiningum fyrir leikskóla á mörkum Kauptúns og Urriðaholts sem tekur til starfa haustið 2022 og verður undanfari nýs leikskóla sem fer í byggingu á árinu. Unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu Urriðaholtsskóla og er áætlað að verja um 5,1 milljarði til þess verkefnis á næstu árum. Aðstaða fyrir eldri borgara í félagsmiðstöðvum verður bætt. Áfram verður unnið að frágangi gatna og göngustíga í nýrri hverfum jafnframt því sem unnið verður að viðhaldi gatna í eldri hverfum.

Hér má lesa ársreikning Garðabæjar fyrir 2021.