Japanski bíla­fram­leiðandinn Toyota, sem er sá stærsti í heimi, hefur til­kynnt um að skorið verði niður í fram­leiðslu bif­reiða um 40 prósent vegna skorts á tölvu­kubbum sem nauð­syn­legir eru við smíði þeirra.

Co­vid-far­aldurinn hefur haft mikil á­hrif í Suð­austur-Asíu þar sem mikið af tölvu­kubbunum eru fram­leiddir. Skorturinn hefur haft mikil á­hrif á bíla­fram­leið­endur um allan heim.

Í til­kynningu frá fyrir­tækinu segir að 540 þúsund bílar verði smíðaðir í næsta mánuði en til stóð að smíða 900 þúsund. Dregið verður úr fram­leiðslu í stærstum hluta verk­smiðja fyrir­tækisins í Japan og verður röskun á 27 fram­leiðslu­línum, sem og í verk­smiðjum Toyota um allan heim. Verk­smiðjur í Kína og Banda­ríkjunum hefur verið fyrir­skipað að skila af sér 80 þúsund færri bílum en á­ætlað var áður og í Evrópu 40 þúsund.

Hluta­bréf lækkað í verði

Vaxandi fjöldi Co­vid-smita í Víet­nam og Malasíu hefur aukið mjög á skorti á hálf­leiðurum og öðrum nauð­syn­legum í­hlutum. Löndin tvö gegna lykil­hlut­verki í fram­leiðslu raf­einda­vara, auk fleiri í­hluta sem notaðir eru við fram­leiðslu ýmiss varnings á borð við snjall­síma og bíla. Taí­land er stærsti fram­leiðandi raf­einda­vara fyrir Toyota og þar eru met slegin í smit­fjölda dag eftir degi sem dregið hefur úr fram­leiðslu.

Starfsmaður í verksmiðju í Kína sem framleiðir ýmsa íhluti fyrir Toyota.
Fréttablaðið/EPA

„Það er orðið erfitt að verða sér út um nægjan­­legt magn nokkurra í­hluta sem leitt hefur til þessa skyndi­­­lega og um­­fangs­­mikla niður­­­skurðar,“ segir Kazunari Kumakura, yfir­­­maður að­­fanga hjá Toyota við Financial Times.

Niður­skurðurinn er mikið á­fall fyrir fyrir­tækið sem hefur þrátt fyrir far­aldurinn skilað met­hagnaði og vand­ræði annarra bíla­fram­leið­enda við að verða sér úti um tölvu­kubba hefur lagst mun þyngra á marga sam­keppnis­aðila. Hluta­bréf í fyrir­tækinu lækkuðu um 4,4 prósent er til­kynnt var um hann.