Gani ehf, sem er í eigu Tómasar Kristjánssonar fjárfestis, er komið á lista yfir stærstu hluthafa Kviku banka. Samkvæmt nýuppfærðum hluthafalista bankans er félag Tómasar tuttugasti og annar stærsti hluthafinn með 1,06 prósenta hlut sem jafngildir 262 milljónum króna miðað við núverandi markaðsgengi Kviku.

Tómas er því kominn aftur á hluthafalista bankans eftir þriggja ára fjarveru. Viðskiptafélagarnir Tómas og Finnur Reyr Stefánsson leiddu hóp fjárfesta sem keypti 65 prósenta hlut í Straumi fjárfestingabanka sumarið 2014 en ári síðar sameinaðist bankinn MP banka undir nafni Kviku.

Fjárfestingafélagið Sigla ehf., sem áður var í jafnri eigu Gana ehf, félags Tómasar, og Snæbóls ehf, félags Finns Reys og Steinunnar Jónsdóttur, losaði um allan hlut sinn í Kviku banka, alls 7,27 prósent, í október 2017.

Kvika banki og TM tilkynntu í lok september að hefja ætti viðræður um sameiningu félaganna á þeim forsendum að hluthafar TM fengju 55 prósenta hlut í sameinuðu félagi.