Veitingamaðurinn Tómas Þóroddsson sem á og rekur staðina Kaffi Krús og Vor á Selfossi hefur keypt Messann í Lækjargötu og verða dyr staðarins opnaðar gestum að nýju klukkan 11:30 í dag.

Áfram verður lögð megináhersla á ferskan fisk og upplifunin fyrir gesti sú sama og hún var fyrir lokun enda eru yfirþjónn og kokkur staðarins þeir sömu og áður.

„Það er mikill fengur að þeim enda Messinn þekktur fyrir skotheldan mat og góða þjónustu. Konseptið verður alveg eins en það bætast við nokkrir nýir réttir á seðilinn og það getur nú ekki verið annað en fagnaðarefni fyrir gestina okkar,“ segir Tómas Þóroddsson, eigandi Messans, í tilkynningu.

Messinn verður opinn alla daga vikunnar frá klukkan 11:30 - 22:00 og segist Tómas spenntur fyrir því að standa vaktina með sínu fólki.