Eig­endur Tölvu­teks munu í dag óska eftir því við héraðs­dóm að fyrir­tækið verði tekið til gjald­þrota­skipta í fram­haldi af því að ekki náðist sam­komu­lag við við­skipta­banka fé­lagsins um á­fram­haldandi láns­heimildir.

Greint er frá því í til­kynningu frá fyrir­tækinu að fyrir­tækið hafi verið stofnað árið 2006 og hafi vaxið hratt. Árið 2013 hafi verslanir þeirra verið orðnar tvær og starfs­mennirnir 50 talsins. Þá hafi verið á­kveðið að flytja í stærra hús­næði og sækja á fyrir­tækja­markað. Þær breytingar á rekstri hafi reynst dýrari en búist var við og er nefnt að hús­næðið sem flutt var í hafi, sem dæmi, verið mikill drag­bítur á reksturinn.

„Eftir tap­rekstur í fyrra var hluta­fé aukið á­samt því að eig­endur lögðu til rekstrar­fé um síðustu ára­mót. Mikil vinna var lögð í að bjarga fé­laginu en eftir að láns­heimildir voru felldar niður varð út­séð um frekari til­raunir til þess,“ segir í til­kynningunni.

Verslunum lokað í gær og gert upp við alla starfsmenn

Verslunum Tölvu­teks var lokað í gær og öllum starfs­mönnum sagt upp, en þau voru 40 alls. Laun voru gerð upp við alla. Þá er greint frá því að öllum búnaði sem var í við­gerð hjá fyrir­tækinu hafi verið komið í hendur eig­enda og að reynt hafi verið að lág­marka tjón eftir bestu getu. Þeir sem eftir eiga að gera upp við fyrir­tækið verða að gera kröfu í bú þess hjá skipta­stjóra.

Næstu daga verður hægt að senda fyrir­spurnir á spjall­rás Tölvu­teks á Face­book en þar verður reynt eins og hægt er að veita upp­lýsingar og leið­beiningar.

Að lokum þakka eig­endur Tölvu­teks við­skipta­vinum fyrir sam­fylgdina síðast­liðin 12 ár og ein­staka vel­vild í þeirra garð frá upp­hafi.