Tölvutek hætti starfsemi í dag. Þetta var tilkynnt á Facebook-síðu verslunarinnar.

„Eftir 12 ár í rekstri þykir okkur leiðinlegt að tilkynna að af óviðráðanlegum ástæðum verða verslanir Tölvutek lokaðar frá og með 24.júní 2019,“ segir í tilkynningunni.

Tölvutek velti 1,4 milljörðum króna árið 2017 og 1,5 milljörðum árið áður. Árið 2017 tapaði verslunin 12 milljónum króna fyrir skatta en árið áður hafði hún hagnast um fjórar milljónir króna eftir skatta.

Tölvutek rak verslun í Reykjavík og á Akureyri og hafði söluaðila um allt land, segir í ársreikningi.

Eigið fé fyrirtækisins var 55 milljónir króna árið 2017 og eiginfjárhlutfallið var tólf prósent. Fyrirtækið skuldaði 430 milljónir króna við árslok. Stöðugildi voru þá 45, samkvæmt ársreikningi.

Stærstu hluthafar Tölvuteks eru Hafþór Helgason framkvæmdastjóri með 24 prósent, Þórdís Guðmundsdóttir með níu prósent, Bragi Haraldsson með sjö prósent og Halldór Hrafn Jónsson með sex prósent.