Tölvuárásum sem lama tölvukerfi fyrirtækja og stofnana fjölgaði fjölgaði um 151 prósent á fyrri hluta ársins 2020. Hér er horft til dreifðra álagsárása eða DDoS (e. distributed denial of service attack). Aukninguna má rekja þess að netumferð jókst um meira en helming á tímabilinu vegna aukinnar heimavinnu í COVID-19. Þegar netumferð eykst fjölgar tölvuglæpum, að sögn Anton Más Egilssonar, forstöðumanns öryggis- og skýjalausna hjá Origo.

„DDoS-árásir fela í sér að gríðarmikilli umferð er beint á vefsíðu fórnarlambsins þannig að hún verður óaðgengileg með tilheyrandi kostnaði og rekstrartruflunum. Þeir sem standa að baki árásinni krefjast síðan lausnargjalds fyrir að gera hlé á henni. Tölvuþrjótar geta myndað svona mikla umferð með því að senda gríðarlega margar fyrirspurnir á netþjóna sem þeir hafa brotist inn í, til dæmis með notkun ruslpósts. Vöxtur internets hlutanna (e. Internet of Things) hefur einnig veitt tölvuþrjótum nýja aðgangspunkta að tölvukerfum fyrirtækja, sem oft eru illa varðir,“ segir Anton í pistli á vef Origo.

Anton bendir á að búast megi við áframhaldandi vexti netumferðar og segir að sama skapi að tölvuþrjótar færi sig sífellt upp á skaftið.

„Fyrirtækið Cloudflare í San Francisco er leiðandi á sviði varna gegn DDoS-árásum. Það státar af 42Tb netkerfi og yfir 13 milljónum neteigna í 150 löndum. Allar vefsíður sem eru varðar af Cloudflare fá aðgang að þessu alþjóðlega netkerfi sem tryggir þeim mikinn hraða og öfluga vörn gegn DDoS-árásum. Alþjóðlegt netkerfi Cloudflare er 15 sinnum stærra en stærsta DDoS-árás sem sögur fara af, sem gefur nokkra hugmynd um hversu öflug vörnin er. Origo og Cloudflare hafa tekið upp samstarf sem gerir okkur kleift að bjóða öflugri vernd en áður hefur þekkst,“ segir hann.