Bandarískir og kínverskir erindrekar komust ekki að samkomulagi um nýjan viðskiptasamning milli ríkjanna tveggja eftir samningaviðræður á undanförnum dögum. Bandaríkin lögðu í dag á nýja tolla á kínverskar vörur og Bandaríkjaforseti hótar að setja tolla á nær allar innfluttar vörur frá Kína.

Á undanförnu ári hefur mjög kólnað í viðskiptasambandi ríkjanna tveggja. Donald Trump Bandaríkjaforseti telur að Bandaríkin séu beitt órétti á grundvelli þess viðskiptasamnings sem nú er í gildi, og hefur hótað að beita öllum ráðum til að knýja á nýjan samning. Hefur hann m.a. hækkað tolla á innfluttar hrávörur frá Kína, en Kínverjar svöruðu í sömu mynt.

Nokkuð friðsælt á milli ríkjanna tveggja að undanförnu, en nú eru aftur komnar blikur á loft eftir samningaviðræður síðustu daga. Fjármálaráðherra Bandaríkjana, Steve Mnuchin, sagði að viðræðurnar hefðu verið uppbyggilegar, en þrátt fyrir það náðust samningar ekki.

Trump forseti birti í morgun færslu á Twitter-síðu sinni þar sem hann áréttar að það sé engin ástæða til þess að drífa samningaviðræðurnar af.

Viðræðurnar hafa valdið skjálftum á alþjóðamörkuðum, og hefur Dow Jones úrvalsvísitalan fallið um tæpt prósent, en tók aðeins við sér eftir fyrrnefnda yfirlýsingu Mnuchin.