Bandarísk yfirvöld hafa ákveðið að halda áfram rannsókn sinni á innflutningi kísilmálms til Bandaríkjanna frá Íslandi og þremur öðrum löndum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort verðlagning á innfluttum kísilmálmi skaði bandaríska framleiðslu á sömu vöru, en í tilkynningu kemur fram að "rökstuddar vísbendingar" séu þess efnis að verðlagning á innfluttum kísilmálmi frá þessum fjórum löndum sé óeðlileg.

Fyrr í sumar óskuðu tveir stærstu framleiðendur kísilmálms í Bandaríkjunum eftir því við viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna að innflutningstollar verði lagðir á kísilmálm innfluttan frá Íslandi, Malasíu, Kasakstan og Bosníu.

Að sögn Ferroglobe og Missisippi Silicon, sem samanlagt stýra meira en helmingi allar kísilmálmframleiðslu í Bandaríkjunum, njóta framleiðendur landanna fjögurra ósanngjarns samkeppnisforskots. Því náð fram með því að selja kísilmálm á niðursettu verði í krafti niðurgreiðslna við framleiðslu (e. dumping). Er því haldið fram að innflutningsverð á málmi frá löndunum fjórum sé á bilinu 54-85 prósentum lægra en eðlilegt getur talist.

Rannsókn viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna mun nú halda áfram. Í tilkynningu vegna málsins kemur fram að verði grunur um undirverðlagningu staðfestur þá gætu tollar á kísilmálm frá Kasakstan fengið gildi þann 23.september. Tollar á málm frá Bosníu, Malasíu og Íslandi gætu tekið gildi þann 7.desember næstkomandi.

„Ósanngjarnir og ólöglegir viðskiptahættir geta haft mjög eyðileggjandi áhrif, ekki bara á fyrirtæki og starfsmenn þeirra og umkringjandi samfélög, heldur líka hagkerfið í heild sinni,“ sagði Marco Levi, forstjóri Ferroglobe í tilkynninguvegna málsins.