Alls var tólf starfsmönnum sagt upp hjá Valitor, dótturfélagi Arion banka í dag. Það staðfestir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, í samtali við Fréttablaðið í dag. Fólkið var að vinna víðs vegar um fyrirtækið og var, líkt og í Arion banka, gert að yfirgefa vinnustaðinn í dag.

Viðar segir uppsagnirnar lið í hagræðingaraðgerðum.

„Það er megin ástæðan, hagræðingaraðgerðir og til að auka samkeppnishæfni í ljósi mikillar breytinga og þróunar á markaði,“ segir Viðar.

Hann segir að Valitor hafi undanfarið fjárfest mikið í uppbyggingu erlendis. Það hafi kostað sitt og leitt af sér taprekstur.

„Við höfum verið að leggja áherslu á að stækka fyrirtækið, en auðvitað þurfum við líka að huga að kostnaðarhliðinni. Þessar breytingar núna eru hugsaðar til að styrkja þá hlið,“ segir Viðar.

Alls eru 200 að vinna hjá fyrirtækinu hér á Íslandi og svipaður fjöldi erlendis að sögn Viðars. Þau tólf sem sagt var upp eru ekki hluti þeirra 100 sem var sagt upp hjá Arion banka í dag.

Valitor tapaði hátt í 2,8 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins. Þetta kom fram í árshelmingsuppgjöri Arion banka sem birt var í ágúst. Rekstrartekjur Valitors námu 1.982 milljónum króna en þær námu 3.221 milljónum á fyrri helmingi síðasta árs. Rekstrargjöld jukust úr 3.922 milljónum króna í 5.109 milljónir á milli ára. Valitor féllst í júlí á að greiða Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) samtals 1.200 milljónir króna í skaðabætur fyrir að slíta samningi um greiðslugátt fyrir söfnunarfé til WikiLeaks sumarið 2011.