Tólf manns var sagt upp störfum hjá Íslandsbanka í morgun. Þetta staðfestir Edda Hermannsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, í samtali við Fréttablaðið en Vísir greindi fyrst frá.

Að sögn Eddu var um að ræða einstaklinga sem störfuðu á upplýsingatæknisviði bankans en engar uppsagnir voru á öðrum sviðum.

„Þetta eru í rauninni bara hagræðingaaðgerðir og breytingar á áherslum,“ segir Edda og bætir við að ekki séu fyrirhugaðar frekari uppsagnir.

Aðspurð um hvort uppsagnirnar hafi áhrif á þjónustu bankans segir Edda svo ekki vera.