Alls var tíu starfsmönnum greiðslumiðlunarfyrirtækisins Borgunar sagt upp í gær að því að því er heimildir Markaðarins herma. Þar af voru ýmsir úr æðsta stjórnendalagi fyrirtækisins.

Greint var frá því í gær að þeir Eduardo Pontes og Marcos Nunes myndu gegna hlutverki forstjóra sameiginlega í kjölfar þess að fráfarandi forstjóri Sæmundur Sæmundsson hætti. Sæmundur hefur þegar látið af störfum.

Einnig var gengið frá starfslokum nokkurra annarra lykilstarfsmanna úr yfirstjórn félagsins, samkvæmt heimildum Markaðarins

Eduardo Pontes starfaði áður sem forstjóri brasilíska fjártæknifyrirtækisins Stone Co og Marcos Nunes starfaði áður sem framkvæmdastjóri alþjóðlegrar færsluhirðingar og ytri vaxtar hjá sænska greiðslumiðlunarfyrirtækinu Bambora.

Alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay gekk frá kaupum á tæplega 96 prósenta eignarhlut í Borgun í síðustu viku fyrir samtals 27 milljónir evra, jafnvirði 4,3 milljarða króna.

Kaupverðið á Borgun, sem var í meirihlutaeigu Íslandsbanka var lækkað um átta milljónir evra vegna þeirra neikvæðu efnahagsáhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á rekstur félagsins.

Rekstrartap Borgunar á fyrstu fimm mánuðum ársins nam 642 milljónum króna sem var nokkuð verri afkoma en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Fréttin var uppfærð kl 12.12. Tíu en ekki tólf manns var sagt upp, samkvæmt upplýsingum frá Borgun.