Hermann Guðmundsson, forstjóri Kemi, er gestur Jóns G. annað kvöld á Hringbraut. Kemi hefur meira en tvöfaldað veltuna á síðustu tveimur árum og meira en þrefaldað hagnað sinn. Fyrirtækið er með fjölda vöruflokka og áberandi í sölu á Covid-vörum.

Þeir Jón koma víða við í viðtalinu og ræða meðal annars hvaða ákvörðun Hermanns hafi skilað mestum árangri í rekstrinum á síðasta ári; hvaða góða ráð í stjórnun hann eigi; hver sé uppáhalds erlendi forstjórinn, námið í IESE-háskólanum í Barcelona, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra og hina stórskemmtilegu sögu um bitann á Bæjarins bestu eftir brúðkaup þeirra Hermanns og Svövu Gunnarsdóttur í lok okbóter síðastliðinn.

Sú ákvörðun Hermanns sem skilaði mestu árangri var sú áhætta sem hann tók þegar birgðir fyrirtækisins voru stórauknar í upphafi árs svo það yrði vel í stakk búið ef skortur yrði á vörum erlendis frá vegna Covid þegar líða tæki á árið og forðast þannig að missa sölu vegna vöruskorts. Það er skemmst frá því að segja að dæmið gekk upp.

„Ég vissi svo sem ekki frekar en aðrir í byrjun ársins hvort Covid væri að ljúka eftir einhverjar vikur eða mánuði - eða hvernig þróunin yrði á árinu. En ég tók ákveðna áhættu og keypti talsvert mikið meira af vörum inn á lager en ég hafði þörf fyrir. Fjárfesti í birgðum sem borgaði sig þegar upp var staðið. Við áttum vörur þegar aðrir voru lens og seldum alveg óhemju mikið,“ segir Hermann.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar kl. 20 öll mánudagskvöld.