Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 1 prósent milli janúar og febrúar. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Verð á fjölbýli lækkaði um 1 prósent og verð á sérbýli lækkaði um 1,2 prósent. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,1 prósent og verð á sérbýli um 4,8 prósent. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 3,7 prósentum sem er lægsta árshækkun frá því í maí 2011.

Í nýlegri Hagsjá kom fram að um 1.500 nýjar íbúðir hefðu verið settar á söluskrá á höfuðborgarsvæðinu seinni hluta ársins 2018 og að einungis hefðu selst um 440 nýjar íbúðir á sama tíma. Segir hagfræðideild að því líti út fyrir að óseldar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu skipti hundruðum nú um stundir. 

„Fari svo að slá þurfi af verði nýrra íbúða gæti það haft áhrif á verð eldri íbúða. Nafnverð íbúðarhúsnæðis er jafnan tregbreytanlegt niður á við og mætti því ætla að áhrifin af lækkun nýrra íbúða sköpuðu frekar kyrrstöðu í einhvern tíma í stað þess að verð lækki mikið. Verðlækkunin nú í febrúar kann að vera merki um þessa þróun, en það er þó varasamt að taka of mikið mið af einum mánuði.“

Þá er bent á að mikið óvissuástand einkenni áfram íslenskt efnahagslíf eins og síðustu vikur og mánuði.

„Hvað fasteignamarkaðinn varðar er það einkum óvissa um kjaramál og kjarasamninga sem skiptir máli. Þrátt fyrir alla umræðu um óvissu má segja að fasteignamarkaðurinn hafi lifað ágætu lífi síðustu mánuði og viðskipti haldið áfram með hefðbundnum hætti hvað fjölda viðskipta varðar, en verðþróunin er mun hægari en áður var.“