Tryggingamiðstöðin tapaði 251 milljón króna á þriðja fjórðungi ársins en á sama tímabili í fyrra hagnaðist félagið um 208 milljónir króna.

Afkoma TM af vátryggingastarfsemi á þriðja ársfjórðungi 2019 var nokkuð betri en á sama tímabili fyrra árs og samsett hlutfall var 94,9 prósent samanborið við 96,2 prósent.

Tap af fjárfestingum nam hins vegar 337 milljónum króna á fjórðungnum sem jafngildir 1,1 prósenta neikvæðri ávöxtun. Tap af fjárfestingum er heldur meira en tilkynnt var með afkomuviðvörun í lok september en þá var áætlað að tapið myndi nema 225-275 milljónum króna.

„Meira tap skýrist hvoru tveggja af lækkunum á markaði þann 30. september og óbeinu tapi í gegnum sjóði vegna vandræða Gamma Novus. Þessi slaki fjórðungur í fjárfestingum er fyrst og fremst tilkominn vegna niðurfærslu á fasteignasjóðnum Gamma Novus um 311 milljónir króna og vegna taps af skráðum hlutabréfum,“ segir í uppgjörstilkynningu TM.

TM hefur sem kunnugt er fest kaup á Lykli fjármögnun. Kaupverðið er 9.250 milljónir króna auk þess sem TM greiðir hagnað Lykils á árinu 2019 til seljanda.

„Með kaupunum á Lykli fjármögnun skýtur félagið styrkari stoðum undir grunnrekstur samstæðunnar, áhættudreifing eykst og sveiflur í afkomu verða minni. Félagið áætlar að fyrirvörum um kaup á Lykli verði aflétt í lok ársins eða byrjun þess næsta og Lykill verði hluti af TM samstæðunni í framhaldinu,“ er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, í tilkynningunni.