TM seldi hlut sinn í HS veitum í ágúst. Tryggingafélagið keypti 5,4 prósenta hlut í HS veitum árið 2014. Árleg ávöxtun fjárfestingarinnar var 28 prósent. Hluturinn var bókfærður á 1,3 milljarða króna í lok júní. Þetta kemur fram í fjárfestingakynningu TM.

TM hagnaðist um 1.337 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 140 milljón króna tap á á sama tíma fyrir ári. Samsett hlutfall var 96,8 prósent á ársfjórðungnum samanborið við 109,9 prósent á sama tíma fyrir ári. Undanfarna tólf mánuði hefur samsetta hlutfallið verið 100,1 prósent. Stjórnendur TM gera ráð fyrir því að samsett hlutfall ársins 2019 verði 99,5 prósent.

Bætt afkoma af slysatryggingum og sér í lagi eignatryggingum skýrir þann viðsnúning sem hefur orðið í vátryggingastarfsemi á fjórðungnum samanborið við síðasta ár. Eigin iðgjöld vaxa um 3,7 prósent á milli ára og eigin tjón lækka um 10,1 prósent, segir í tilkynningu.

Fjárfestingatekjur námu 1.483 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2019 sem jafngildir 4,9 prósenta ávöxtun. Þetta eru hæstu fjárfestingatekjur TM á einum fjórðungi frá skráningu félagsins 2013. Innlendir verðbréfamarkaðir voru hagfelldir á öðrum ársfjórðungi en markaðsvísitala Gamma hækkaði um 4,9 prósent á fjórðungnum.

Í tilkynningu segir að mjög góð afkoma hafi verið af skráðum og óskráðum hlutabréfum en afkoma af þessum eignaflokkum skýrir tæplega tvo þriðju af fjárfestingatekjum fjórðungsins. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var 14 prósent á tímabilinu en til samanburðar hækkaði hlutabréfavísitala Gamma um 7,2 prósent á sama tíma.

Þá skýrist góð ávöxtun af óskráðum hlutabréfum m.a. af sölu á eignarhlut félagsins í HSV eignarhaldsfélagi. Fjárfestingatekjur á öðrum ársfjórðungi voru töluvert umfram spá sem gerði ráð fyrir 846 milljónir króna tekjum. Þetta hefur í för með sér að spá fyrir fjárfestingartekjur á árinu 2019 hefur verið hækkuð úr 3.043 milljónum upp í 3.337 milljónir þrátt fyrir að þróun á mörkuðum hafi verið frekar óhagfelld það sem af er þriðja fjórðungi.