TM hefur sent frá tilkynningu til Kauphallarinnar þar sem tryggingafélagið segist vilja „árétta að engar viðræður [séu] í gangi um mögulegan samruna TM og Kviku, né [séu] slíkar viðræður fyrirhugaðar.“

Tilefnið er frétt Markaðarins í morgun þar sem greint var frá því að æðstu stjórnendur félaganna hefðu á undanförnum vikum átt í viðræðum um mögulega sameiningu. Rætt hafi verið um helstu skilmála slíkta viðskipta, nú síðast um liðna helgi, en ekki hefur enn náðst samkomulag um undirritun viljayfirlýsingar um að hefja formlegar sameiningarviðræður.

Eru viðræðurnar, sem eiga sér nokkurn aðdraganda, sagðar nú vera á ís eins og sakir standa, að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála. Á meðal þess sem þær hafa einkum strandað á fram til þessa, eru ólíkar hugmyndir um á hvaða verði félögin yrðu metin við sameiningu.

Markaðsvirði Kviku banka er um 19 milljarðar, á meðan TM er nú metið á liðlega 26 milljarða króna.

Markaðurinn stendur við allt sem fram kom í frétt blaðsins um málið í morgun.