Tjónið fyrir Samherja vegna rafmagnsleysisins hleypur á tugum milljóna króna. Þetta kemur fram í jólakveðjubréfi sem Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, sendi á starfsmenn í dag.

Öll vinnsla Samherja á Dalvík lá niðri í fimm daga vegna óveðursins sem lék landsmenn grátt fyrr í þessum mánuði og rafmagnsleysisins sem fylgdi. Hluti starfsmanna á Dalvík færði sig yfir til Akureyrar og var því hægt að varðveita og vinna úr hráefni að sögn Björgólfs.

Dalvíkurlínan rofnaði og voru um 20 rafmagnsstæður sem annað hvort brotnuðu eða bognuðu. Varðskipið Þór var notað tímabundið sem aflgjafi fyrir bæinn.

Um fimmtíu manna hópur verkamanna á vegum Samherja þurfti að færa sig yfir í fjöldahjálparstöð í grunnskólanum vegna stormsins. Þeir höfðu unnið í kringum nýja frystihúsið en verkamannaíbúðir þeirra standa alveg við sjóinn.

Ekkert tjón varð á tækjabúnaði og skipum að sögn Björgólfs en vinnslan á Dalvík hófst aftur síðastliðinn þriðjudag.

„Ég vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til viðbragðsaðila fyrir þeirra óeigingjarna starf í kjölfar rafmagnsleysis. Ég vil jafnframt þakka þeim starfsmönnum, sem færðu tig tímabundið til Akureyrar, alveg sérstaklega fyrir,“ skrifar Björgólfur.