Fasteignafélagið Reitir áætlar að tjón fyrirtækisins vegna covid-faraldursins nemi um 1,5 milljörðum króna. Stærsti hlutinn af þessu tjóni er vegna erfiðleika leigutaka í ferðaþjónustunni. Hagnaður Reita á síðasta ári nam 7,6 milljörðum króna borið saman við 1,9 milljarða árið 2020. Þessi aukning stafar hins vegar að mestu vegna endurmats á eignum félagsins en efnahagsreikningur Reita er upp á um 150 milljarða og eigið féð nam um 59 milljörðum króna um síðustu áramót.

Þetta kemur fram í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. sem er á dagskrá Hringbrautar kl. 21 í kvöld en Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita er gestur Jóns.

„Við höfum sagt það í tilkynningum til markaðarins í tengslum við uppgjör okkar vegna ársins 2020 og 2021 að það sé okkar mat að tjón félagsins vegna Covid sé samtals um 1,5 milljarðar króna. Þetta er um 5% af veltu félagsins yfir þennan tíma,“ segir Guðjón.

Um það hvort þetta sé allt saman tapað, telur Guðjón svo ekki vera. „En út frá öryggissjónarmiðum í uppgjörum hafi verið nauðsynlegt að áætla tjónið og það hafi verið fært sérstaklega í bókhaldinu. „Hluti af þessu er örugglega tapaður en hluti er ekki tapaður og er ennþá í vinnslu,“ segir Guðjón.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.