Stóru viðskiptabankarnir þrír ættu að geta náð markmiði sínu um tíu prósenta arðsemi af reglulegum rekstri þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Þetta er mat greinenda hagfræðideildar Landsbankans.

Í nýrri umfjöllun hagfræðideildarinnar um uppgjör bankanna fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins, sem Markaðurinn hefur undir höndum, er bent á að bætt arðsemi þeirra geti komið til vegna meðal annars lægri bankaskatts og eiginfjárkrafna og strangs kostnaðaraðhalds. Eldri vandræðaeignir og hátt eiginfjárhlutfall hafi hingað til torveldað þeim að ná arðsemismarkmiðum sínum.

Greinendur hagfræðideildarinnar nefna að hagkvæmari fjármagnsskipan, með útgáfu víkjandi lána, og minni kostnaður hafi meðal annars stuðlað að bættri afkomu bankanna, auk þess sem merki séu um að grunnrekstur þeirra fari batnandi.

Þrátt fyrir að kórónaveiran muni setja mark sitt á afkomu bankanna á þessu ári og því næsta og vekja upp spurningar um virði eigna þá sé ekki útilokað að þeir geti náð áðurnefndu markmiði um tíu prósenta arðsemi.

Í umfjöllun hagfræðideildarinnar er bent á að virðisrýrnun útlána bankanna - Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans - hafi verið heldur meiri en á meðal annarra norrænna banka á fyrsta fjórðungi ársins.

Þannig hafi virðisrýrnun hérlendra banka numið í kringum 0,4 prósentum af lánasöfnum þeirra á meðan norrænir bankar hafi almennt verið íhaldssamari í mati sínu og hlutfallið þar ekki farið yfir 0,25 prósent. Er meginskýringin á muninum, að mati greinenda Landsbankans, þjóðhagslegt vægi ferðaþjónustunnar hér á landi.