Rétt yfir 10 prósent svarenda í nýrri markaðskönnun sem Íslandsstofa stóð á bak við telja líklegt að þau muni ferðast til Íslands innan næstu tólf mánaða og mestur er áhugi Bandaríkjamanna.

„Þetta eru mjög jákvæðar niðurstöður og þær sýna að Ísland er samkeppnishæfur áfangastaður miðað við önnur lönd,“ segir Daði Guðjónsson, fagstjóri neytendamarkaðssetningar hjá Íslandsstofu.

„Við þurfum þó að hafa í huga að þetta er ekki fullnaðarsigur. Fólk er fljótt að gleyma og þess vegna er mikilvægt að viðhalda Íslandi sem áfangastað í huga ferðamanna þangað til og eftir að þeir byrja að ferðast á ný.“

Markaðskönnun Íslandsstofu, sem var framkvæmd af Maskínu í febrúar, náði til ferðamanna í Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Kanada, Þýskalandi og Svíþjóð. Svarendur voru á aldursbilinu 25 til 65 ára.

Innan næstu tólf mánaða ætla rétt yfir 10 prósent svarenda að heimsækja Ísland sem er svipað hlutfall og ætlar að heimsækja Finnland á sama tímabili. Til samanburðar ætla um 7 prósent að heimsækja Nýja-Sjáland og 16 prósent að heimsækja Danmörku, en það eru lægstu og hæstu hlutföllin af löndum sem var spurt um.

„Þess má geta að þegar könnun­in var framkvæmd voru ekki komnar fréttir um eldgosið, áform um að bólusettir ættu greiðari leið inn í landið og Húsavíkurlagið hafði ekki verið tilnefnt til Óskarsverðlauna.“

Nokkuð lítill munur er á milli mánaða sem ferðamenn segjast almennt verða tilbúnir að byrja að bóka næstu ferð en júní og september mælast hæst.

„Þess má geta að þegar könnun­in var framkvæmd voru ekki komnar fréttir um eldgosið, áform um að bólusettir ættu greiðari leið inn í landið og Húsavíkurlagið hafði ekki verið tilnefnt til Óskarsverðlauna. Þetta eru allt hlutir sem vinna með okkur,“ segir Daði.

Frá því að könnunin var framkvæmd hefur leitarfyrirspurnum sem tengjast Íslandi sem áfangastað fjölgað mikið að sögn Daða en leitarfyrirspurnum frá Bandaríkjunum hefur fjölgað um prósent frá því í febrúar. Þannig má leiða líkur að því að ferðaviljinn sé enn meiri en niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna.

Á næstu tólf mánuðum eru Bandaríkjamenn líklegastir til að heimsækja Ísland, en á bilinu 14-15 prósent þeirra segjast líkleg til að ferðast hingað til lands. Kanadabúar eru ólíklegastir, en 6 prósent þeirra ætla að heimsækja Ísland.

„Þetta rímar við það sem við heyrum í samtölum við ferðaþjónustufyrirtæki en það er að mesti áhuginn kemur frá Bandaríkjunum og síðan Bretlandi,“ segir Daði.

Rúmlega 43 prósent svarenda ætla að ferðast til útlanda á næstu tólf mánuðum. Kanadamenn eru ólíklegastir til að ferðast til útlanda á tímabilinu, rétt undir 25 prósentum, og Bandaríkjamenn, um 58 prósent, eru líklegastir.

Daði Guðjónsson, fagstjóri neytendamarkaðssetningar hjá Íslandsstofu.

Þá mælist Ísland hæst þegar kemur að trausti ferðamanna til landa til að takast á við COVID-19. Um 33 prósent svarenda sögðust treysta Íslandi algjörlega en næsta land á eftir er Kanada með 26 prósent.

Áhyggjur af útbreiðslu COVID-19 voru algengasta ástæðan sem fólk gaf fyrir því að það væri ólíklegt til að ferðast á næstunni. Um 77 prósent svarenda nefndu COVID-19 sem helstu ástæðuna.

„Það er mjög mikilvægt að viðhalda þessu trausti nú þegar við nálgumst eðlilegra ástand og getum byrjað að taka á móti ferðamönnum,“ segir Daði.

Þá gefa niðurstöðurnar til kynna að samsetning þeirra sem hyggjast koma til landsins sé íslenskri ferðaþjónustu hagfelld. „Við sjáum að ungir menntaðir og tekjuháir ferðamenn er sá hópur sem er líklegastur til að heimsækja Ísland innan árs,“ segir Daði.

Á öllum markaðssvæðum, nema Kanada, eru svarendur með hærri laun líklegri til að ferðast til útlanda á næstu mánuðum heldur en þeir sem eru með lægri laun.

Einnig voru svarendur spurðir hversu aðlaðandi væri að starfa á Íslandi. Um 46 prósent sögðu það vera aðlaðandi kost og nefndu flestir náttúru, öryggi og lífsgæði sem helstu ástæður. Flestir sögðust geta hugsað sér að starfa á Nýja-Sjálandi, um 57 prósent, en fæstir í Finnlandi, um 43 prósent. Þeir sem ekki vildu starfa á Íslandi nefndu það helst að þeir vissu ekki nægilega mikið um landið eða að ekki væri nægilega gott aðgengi til eða frá landinu.