Tíu ár eru í dag síðan að banda­ríska ham­borgara­keðjan McDonalds lokaði hurðinni í síðasta skiptið á Ís­landi og hefur veitinga­staðurinn Metro raunar gegnt hlut­verki ham­borgara­keðjunnar allar götur síðan. Frétta­blaðið rifjar upp lífs­hlaup keðjunnar og enda­lok hennar hér­lendis í til­efni af tíma­mótunum.

Þrátt fyrir að keðjan hafi ekki verið til staðar á Ís­landi í tíu ár hefur keðjan samt sem áður skipað mikinn þátt í lífi þjóðarinnar. Kannast ef­laust flestir við sér­stakar McDonalds ferðir Ís­lendinga í út­löndum og sér­sniðin snöpp og Insta­gram færslur sem til­einkaðar eru ham­borgara­mál­tíðunum.

Opnaði næstum aftur á Ís­landi eða svo héldum við

Þess vegna vakti það mikla at­hygli hér­lendis fyrir rúmu ári síðan þegar greint var frá því að for­svars­menn keðjunnar væru að í­huga að endur­opna staðinn hér á landi. Var það sett í sam­hengi við þann gífur­lega ferða­manna­vöxt sem hefði orðið í landinu og for­svars­mennirnir sagðir hugsa sér gott til glóðarinnar.

Þegar keðjunni var svo send fyrir­spurn um málið kom í ljós að enginn fótur var fyrir þeim frétta­flutningi. Sögðust þeir ekki hafa nein á­form um að opna hér úti­bú en að þeir væru stöðugt að endur­meta slíkar á­kvarðanir.

Ís­lendingar þurfa því að bíða lengur eftir því að sjá Dag B. Eggerts­son feta í fót­spor Davíðs Odds­sonar þegar hann nældi sér í fyrsta McDonalds ham­borgarann hér­lendis árið 1993, sem borgarstjóri Reykjavíkur.

Ruddu öllum McDonalds merkingum í burtu

Dr. Gunni gerði sögu ham­borgara­keðjunnar skil í Frétta­blaðinu þann 31. októ­ber árið 2009 en þá gafst Ís­lendingum kostur á að gæða sér á ham­borgunum í síðasta skiptið. Ræddi hann við Jón Garðar Ögmunds­son, þá­verandi rekstar­aðila McDonalds á Ís­landi og Metro.

Þar tjáði Jón honum að í kringum 2004 hefði McDonalds á Ís­landi farið að nota er­lent kjöt í kjöl­far kjöt­skorts á Ís­landi. Síðustu árin kom kjötið í borgurunum því úr gámum frá Þýska­landi.

„McDonald‘s hefur ekki gefið leyfi til að breyta þessu síðan þá, sama hvað ég hef reynt,“ sagði Jón við til­efnið. Í um­fjöllun sinni minnist Dr. Gunni á að einungis sex lönd í Evrópu voru á þessum tíma án ham­borgara­keðjunnar, Albanía, Armenía, Bosnía og Hersegóvína, Græn­land og Vatíkanið. Síðan þá opnaði reyndar staður frá keðjunni í Vatí­kanínu árið 2017.

Eftir að staðurinn lokaði í síðasta skiptið þann 31. októ­ber árið 2009 var öllum McDonalds merkingum rutt í burtu og þeirra í stað kom Metro merkið, sem flestir Ís­lendingar kannast ef­laust við.

Lokunin vakti heims­at­hygli og voru allir helstu er­lendu miðlarnir hér­lendis þegar staðurinn lokaði, enda eitt af fáum ríkjum heims þar sem staðurinn hefur lokað. Raunar heldur fjar­vera McDonalds á­fram að vekja at­hygli eins og var ljóst þegar CNBC henti í greinar­gott heimildar­mynd­band um hvers vegna keðjan gekk ekki upp hér­lendis.

Fréttablaðið/Skjáskot/Tímarit.is

Tíma­lína McDonald's líkt og birtist í Frétta­blaðinu 2009:

1940: Fyrsti McDonalds-staðurinn opnar.
1954: Ray Kroc kemur inn í líf McDonald‘s bræðranna.
1959: Hundraðasti McDonald‘s staðurinn opnaður.
1961: McDonald‘s bræður selja Ray nafnið og
reksturinn. Þeir reka þó á­fram upp­haf­lega staðinn undir nýju nafni, The Big M.
1963: Lukku­dýr McDonald‘s, Ronald McDonald, er kynntur til sögunnar.
1967: Fyrsti McDonald‘s utan Banda­ríkjanna opnar í Kanada.
1968: Big Mac-borgarinn kynntur.
1968: Þúsundasti staðurinn opnar.
1971: Fyrsti McDonald‘s í Evrópu opnar í Hollandi.
1978: Fimm þúsundasti staðurinn opnar í Japan.
1984: McDonald‘s, styrktar­aðili Ólympíu­leikanna, tapar stór­fé á til­boðinu „When the US wins, you win,“ eftir að Sovét­ríkin á­kveða að snið­ganga keppnina.
1990: Stærsti staðurinn til þessa opnar í Moskvu. Sama ár opnar McDonald‘s-staður í Kína.
1992: Fyrsti staðurinn í Afríku opnar í Marakkó. Þar með er McDonald‘s í öllum heims­álfum.
1996: Staðurinn kemur til hundraðasta landsins þegar Hvíta­rúss­land fær
sinn McDonalds-stað.
2003: Aug­lýsinga­her­ferðin „I‘m lo­vin‘ it“ kynnt til sögunnar.
2004: Kvik­myndin Super size me vekur mikla at­hygli. McDonald‘s bregðast við og gefur hollustunni meira gaum, hættir meðal annars að ota möguleikanum á að „stækka mál­tíðina“ að fólki.