Titringur er innan ferðaþjónustunnar vegna mögulega hertra sóttvarnaraðgerða vegna nýju Covid-19-bylgjunnar. „Auðvitað hefur fólk áhyggjur af þessu,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Fréttablaðið. „Allt hefur þetta áhrif á atvinnu fólks. Meirihluti ferðaþjónustufyrirtækja eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru að reyna að ná einhverjum tekjum inn í svarthol síðasta árs.“

Í gær greind­ust 56 Co­vid-smit inn­an­lands og hef­ur þeim fjölg­að gríð­ar­leg­a und­an­farn­a daga. Víð­ir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regl­u­þjónn hjá al­mann­a­vörn­um, seg­ir stöð­un­a al­var­leg­a og ekkert muni stöðva útbreiðsluna á meðan engar takmarkanir séu í gildi innanlands.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði við Fréttablaðið í gær að ný bylgja væri hafin og óvíst væri með áhrif bóluefnis á viðkvæma hópa. Þá sagðist hann vera að íhuga að leggja til hertari aðgerðir við heilbrigðisráðherra, þær voru þá ekki á neinu formlegu stigi.

Reynsla annarra landa sýni ekki þörf á harðari aðgerðum

Jóhannes segir smit hefðu verið viðbúin þrátt fyrir bólusetningar. „Það má væntanlega búast við því líka, miðað við bólusetningahlutfallið, eins og sjá má í öðrum löndum að bólusetningar halda vel gagnvart Delta-afbrigðinu. Það er lítið um alvarleg veikindi, sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll. Þannig að vonandi verður reynslan sú sama hér þannig að ekki verði þörf á hörðum aðgerðum.“

Aðgerðirnar eigi að ganga út á að reyna að takmarka álag á heilbrigðiskerfið og heilsufar þjóðarinnar á sama tíma og vega það á móti efnahagslegum áhrifum aðgerðanna.

Afar slæmt að þurfa að segja upp starfsfólki

Ágúst og september eru stórir mánuðir fyrir ferðaþjónustuna, vonir eru bundnar við að tímabilið geti varað fram í nóvember. Aðgerðir nú gætu sett stórt strik í reikninginn. „Áherslan er að reyna að ná eins mikið út úr þessu ári og hægt er, til að fyrirtækin geti unnið út úr þeim skuldavanda sem þau eru í. Það yrði afar slæmt ef fyrirtækin þyrftu að segja upp starfsfólki ef þetta hrynur niður af einhverjum ástæðum,“ segir Jóhannes.

Hann telur einsýnt að aðgerðir á landamærunum sem þegar stendur til að ráðast í, að bólusettir þurfi að skila neikvæðu PCR- eða hraðprófi, muni hafa einhver áhrif á eftirspurn. „Það á eftir að koma í ljós hafa áhrif þetta mun hafa á fólk sem þegar hefur bókað. Það að hægt verði að nota hraðprófin mun vonandi hafa áhrif á það, það er líka minni kostnaður fyrir fjölskyldur,“ segir Jóhannes. „Auka kröfur á bólusetta er óþægilegt gagnvart eftirspurninni. Við þekkjum það í þessum geira að 10 til 15 evrur til eða frá geta skipt máli þegar verið að setja saman pakkaferðir. Þess vegna getur þetta haft heilmikil áhrif.“