Talið er að sala á tískufatnaði og lúxusvarningi muni dragast saman um 25 til 35 prósent vegna aðgerða til að stemma stigu við kórónaveirunni, samkvæmt Boston Consulting Group. Hér er átt við flíkur, fylgihluti, úr, skargripi, ilmvötn og snyrtivörur.

Samdrátturinn verður meiri, að mati ráðgjafafyrirtækisins, en eftir fjármálakreppuna árið 2008. Í lok febrúar hafði BCG reiknað með 15 prósent samdrætti en það var áður en kórónaveiran herjaði á Evrópu og Bandaríkin, segir í frétt Financial Times.

„Það er enginn vafi um að efnahagssamdrátturinn verði V-laga. Spurningin er hvort hann breytist í U eða L,“ segir Sarah Willerdorf hjá BCG.

Það sem geri ástandið verra efnahagslega en í fjármálakreppunni árið 2008 er að verslanir og verksmiðjur eru lokaðar.

BCG telur að sala á tísku- og lúxusvarningi muni dragast mest saman í Suður-Evrópu eða um 85-95 prósent í mars til maí.

Salan fer vaxandi í Kína eftir að hafa dregist saman um 75-85 prósent. Talið er að salan þar muni einungis dragast saman um fimm til tíu prósent.