Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður og prófessor við Hönnunardeild Listaháskóla Íslands og hönnunarmerkið FÓLK Reykjavík hafa gert með sér samstarfsamning um útgáfu hönnunar Tinnu alþjóðlega.

Tinna er fjórði íslenski hönnuðurinn sem FÓLK starfar með en fyrirtækið hefur undanfarin ár byggt upp framleiðsluþekkingu og markaðs- og söluinnviði alþjóðlega á þróun og dreifingu íslenskrar hönnunar, segir í tilkynningu.

Tinna hefur hlotið fjölda viðurkenninga og styrkja fyrir verk sín og verk eftir hana eru í eigu íslenskra og erlendra lista- og hönnunarsafna. Hún hefur tekið þátt í fjölda hönnunarsýninga, hér heima og erlendis.

Tinna er með mastersgráðu í iðnhönnun frá Domus Academy á Ítalíu, Listrannsóknarmaster frá Brighton og stundar nú doktorsnám í menningarfræði við Háskóla Íslands.

„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá FÓLKi að hefja samstarf við Tinnu. Tinna hefur byggt upp afar áhugaverðan feril á sviði hönnunar yfir lengri tíma en kemur þó stöðugt með ferska nálgun og sýn á efnisheiminn. Við hlökkum til að vinna með henni að frekari þróun á íslenskri hönnun á næstunni,” segir Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi FÓLKs.

Íslensk hönnun á heimsvísu

FÓLK var stofnað árið 2017 sem útgefandi og vörumerki fyrir íslenska hönnun á heimsvísu. FÓLK á frumkvæði og styður hönnun og framleiðslu á vörum sem hafa sjálfbærni og hringrás hráefna að leiðarljósi. Fyrirtækið hefur undanfarin ár byggt upp framleiðsluþekkingu og sölu og markaðsinnviði alþjóðlega og er fyrirtækinu ætlað að vera stökkpallur fyrir íslenska hönnuði alþjóðlega.

Vörur fyrirtækisins hafa verið sýndar á sýningum í Stokkhólmi og París og hefur FÓLK nýverið tryggt sér samninga við dreifingaraðila fyrir sex lönd og nú nýverið tók Finnish Design Shop ein stærsta vefverslun Norðurlandanna vörur FÓLKs í sölu.

FÓLK hefur nú þegar þróað og framleitt íslenska hönnun í samstarfi við hönnuðina Jón Helga Hólmgeirsson einn stofnenda Genki og handhafa Hönnunarverðlauna Íslands 2019, Ólínu Rögnudóttur og Theodóru Alfreðsdóttur sem tilnefnd var til Norrænu Formex verðlaunanna árið 2019.