Sterkur efnahagsreikningur Kviku, sameinaðs félags Kviku banka og TM, og lítil markaðshlutdeild félagsins á ýmsum sviðum, skapar fjölmörg tækifæri fyrir tekjuvöxt. Marinó Örn Tryggvason, forstjóri hins nýja, sameinaða félags, segir að sparnaður landsmanna þurfi að breytast í fjárfestingu með auðveldari hætti en gerist í dag. Samfélagsleg ábyrgð fjármálastofnana eigi meðal annars að snúast um það hvernig innlendur sparnaður nái að fjármagna innlendar fjárfestingar.

„Fyrir einhverjum árum síðan var talað um að samrunar banka og tryggingafélaga hefðu ekki gengið sérstaklega vel en þá var hugmyndin meðal annars sú að selja viðskiptavinum banka tryggingar. En um það snýst ekki málið. Það snýst um að nýta tæknina til þess að auðvelda fólki lífið.“

Sameining Kviku, TM og Lykils var endanlega samþykkt á hluthafafundum félaganna í síðustu viku. Félögin verða sameinuð undir merkjum Kviku, en TM hefur fært vátryggingastarfsemi sína í nýtt félag, TM tryggingar hf., og verður það dótturfélag sameinaðs félags og í sjálfstæðum rekstri. Sameining félaganna var ákveðin í lok nóvember 2020, með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlits sem nú hefur gengið í gegn.

Markaðsvirði Kviku stendur núna í 99 milljörðum króna eftir lokun markaða í gær. Kvika er orðið þriðja verðmætasta félagið í Kauphöllinni á eftir Marel og Arion.

Kom til greina að sameinast Sjóvá eða VÍS?

„Það fólst meiri kostnaðarsamlegð í því að sameinast TM frekar en Sjóvá eða VÍS vegna þess að TM var nýbúið að kaupa Lykil, sem hafði óhagkvæmari fjármögnun en bankinn. Þess vegna hafði TM sótt um viðskiptabankaleyfi, svo að hægt væri að færa fjármögnun Lykils í átt að fjármögnun banka.“

Samruninn getur skapað meiri samlegð en lagt var upp með þegar fyrst var greint frá áformunum. Áhrif vegna bæði tekjusamlegðar og kostnaðarsamlegðar eru talin geta numið allt að 3 milljörðum króna.

Eins og áður hefur verið gefið út telja stjórnir félaganna raunhæft að með samrunanum megi ná fram á bilinu 1.200 til 1.500 milljóna króna árlegri kostnaðarsamlegð, án viðskipta- og einsskiptiskostnaðar.

„Þegar leitað er eftir samrunatækifærum er kostnaðarsamlegð í forgrunni vegna þess að það er mun auðveldara að meta hana heldur en tekjusamlegð. Hún er fyrirsjáanlegri, skekkjumörkin fyrir hluthafa eru minni,“ útskýrir Marinó.

„Megnið af henni felst í endurfjármögnun Lykils. Kvika er vel fjármagnaður banki sem getur að mestu leyti – ef ekki öllu – endurfjármagnað stóran hluta af skuldum Lykils. Auk þess fækkar um eitt skráð félag og eina stjórn, einnig er hægt að samnýta ýmis tölvukerfi fyrirtækjanna og svo framvegis.“

Þá er áætlað að eftir þrjú ár hafi náðst tekjusamlegð að fjárhæð 1.500 milljónir króna. Tekjusamlegð felst í afkomu af starfsemi sem líklega hefði ekki náðst án samrunans. Það er því áætlað að tekju- og kostnaðarsamlegð leiði til þess að árlegur hagnaður sameinaðs félags fyrir skatta verði 2.700 til 3.000 milljónum króna hærri en hagnaður félaganna hefðu þau ekki sameinast, að þremur árum liðnum.

„Það leið langur tími frá því að fyrst var tilkynnt um samrunann og þangað til hann gekk í gegn. Aftur á móti hefur tíminn leitt tækifæri í ljós, aðallega á tekjuhliðinni. Sameinað félag er fjárhagslega sterkt en þrátt fyrir það er markaðshlutdeildin lítil á mörgum sviðum. Hún er mikil í skaðatryggingum TM og eignastýringu Kviku en töluverð tækifæri felast í því að auka markaðshlutdeild á völdum sviðum.

Oft og tíðum hafa félög í viðskiptum við bankann vaxið upp úr þjónustu hans. Efnahagsreikningurinn var ekki nægilega stór til þess að hægt væri að þjónusta stærstu íslensku aðilana. Með samrunanum nánast tvöfaldast efnahagsreikningurinn sem gerir það að verkum að bankinn getur ráðist í mun stærri fjármögnunarverkefni og þjónustað stærri aðila en áður.“

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM trygginga og Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.

Einnig eru tækifæri í því að taka þátt í ákveðinni þróun sem á sér stað á alþjóðavísu en Marinó lýsir henni þannig að bankar séu að hverfa úr hugum neytenda.

„Ég rak nýlega augun í erlenda könnun sem sýndi að fólki finnst álíka ánægjulegt að fara í bankaútibú og til tannlæknis. Bestu fjármálafyrirtækin eiga að vera ósýnileg.“

Aðspurður segir Marinó að sameinað félag muni njóta sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði.

„Á fjármálamarkaðinum eru þrír stærstu bankarnir svipaðir að stærð og sama gildir um tryggingafélögin. Eftir sameininguna við TM erum við með einstakt félag á fjármálamarkaði sem er ólíkt keppinautunum. Ég er ekki að segja að þetta sé eina rétta viðskiptalíkanið en mér finnst þetta spennandi viðskiptalíkan. Hagkerfið snýst um samkeppni hugmynda.“

Efla þarf fjármögnun

Gangverk fjármálakerfisins er Marinó hugleikið. Hann segir að góðar hugmyndir þurfi greiðan aðgang að fjármagni svo að bæta megi lífskjör og þróa samfélagið í rétta átt.

„Við þurfum að finna leið til þess að nýsköpunarfyrirtæki ákveði að starfa á Íslandi. Staðan í dag er því miður sú að mörg fyrirtæki eru seld úr landi þegar hugmyndin hefur sannað sig. Til þess að nýsköpunarfyrirtæki vilji starfa áfram hér á landi þarf að búa til umhverfi þannig að nýir eigendur sjái hag sinn í því,“ segir Marinó og nefnir nokkur skilyrði sem þarf að uppfylla.

„Við þurfum hugmyndir – af þeim virðist vera nóg enda er fjölbreytt flóra í íslensku nýsköpunarumhverfi. Við þurfum auk þess gott reglu- og skattaumhverfi, og hagkvæmt fjármögnunarumhverfi. Ísland getur líklega seint keppt í lágum sköttum og líklegt er að launakostnaður verði áfram hærri en í mörgum löndum sem við keppum við,“ bætir hann við.

„Mér finnst að samfélagsleg ábyrgð eða jafnvel skylda aðila á fjármálamarkaði ætti, að minnsta kosti að hluta, að snúast um það hvernig innlendur sparnaður ætti að fjármagna innlendar fjárfestingar.“

Liggur því beinast við að hlúa vel að fjármögnunarumhverfinu að mati Marinós.

„Sparnaðarstig er hátt en sparnaðurinn er einsleitur vegna þess að hann fer að miklu leyti í gegnum lífeyriskerfið. Fyrir ári síðan hafði ég miklar áhyggjur af verðmyndun á verðbréfamarkaðinum en mikil fjölgun almennra fjárfesta á síðustu mánuðum hefur aðeins slegið á þær,“ segir Marinó.

„En sparnaður þarf að breytast í fjárfestingu með auðveldari hætti. Það er á ábyrgð allra sem eru í forsvari fyrir íslenskan fjármálamarkað – hvort sem það eru bankar, tryggingafélög eða lífeyrissjóðir – að búa svo um hnútana að hægt sé að fjármagna góðar hugmyndir svo að fyrirtæki velji að vaxa og dafna á Íslandi. Mér finnst að samfélagsleg ábyrgð eða jafnvel skylda aðila á fjármálamarkaði ætti, að minnsta kosti að hluta, að snúast um það hvernig innlendur sparnaður ætti að fjármagna innlendar fjárfestingar. Fjárfestingar geta leitt til fjölbreytts rekstrar og atvinnutækifæra sem er svo aftur grunnurinn fyrir öflugt velferðarkerfi. Það er því grundvallarforsenda fyrir því að það verði gott að búa hér á landinu í framtíðinni að fyrirtæki ákveði að starfa á Íslandi.“

Þú nefnir samfélagslega ábyrgð. Kvika hefur ekki beint tekið þátt í kapphlaupi stóru viðskiptabankanna í sjálfbærnimálum? Að minnsta kosti ekki út á við. Hvernig stendur á því?

„Það er mikið talað um samfélagslega ábyrgð. Að mínu mati er farsælast að beina kröftum sínum þangað sem þú getur haft mest áhrif, á þeim vettvangi þar sem þú starfar geturðu haft raunveruleg áhrif. Það er stefna Kviku banka. Dæmi um það er að við unnum ókeypis fyrir Icelandair í aðdraganda hlutafjárútboðsins á síðasta ári. Þarna gátum við nýtt þá þekkingu sem bankinn býr yfir til þess að aðstoða við að þjóðhagslega mikilvægt verkefni næði fram að ganga.“

Þegar allt kemur til alls hafa fjármálafyrirtæki aðeins eitt hlutverk að sögn Marinós: miðlun fjármagns. Hann segir fjármálakerfið jafn mikilvægan innvið fyrir landið og samgöngur.

Ýmislegt á teikniborðinu

Kvika banki keypti nýlega allt hlutafé í fjártæknifyrirtækinu Aur. Það heldur utan um samnefnt app sem býður upp á einfalda og fljótlega leið til að borga, rukka eða deila peningum.

„Aur er fjártæknifyrirtæki sem við teljum að henti hagkerfinu eins og það er í dag og verður í framtíðinni. Það einfaldar fólki lífið og er að því leyti hluti af þessari vegferð að gera fjármálafyrirtæki ósýnileg. Og það er dálítið merkilegt að þegar við hófum viðræður við TM kom í ljós að þau höfðu líka mikinn áhuga á Aur,“ segir Marinó. Bankinn keypti einnig nýlega fjártæknifyrirtækið Netgíró.

Eru nýjar fjármálaafurðir á teikniborðinu?

„Það eru ýmsar hugmyndir á teikniborðinu og nú þegar samruninn hefur gengið í gegn munu fleiri og fleiri tækifæri koma í ljós. Við munum koma fram með nýjungar þegar fram í sækir, ekki ósvipað því sem við gerðum með Auði,“ segir Marinó. Fyrir tveimur árum hleypti Kvika af stokkunum Auði, nýrri fjármálaþjónustu, sem býður upp á sparnaðarreikninga.

Ekki nýjar heimildir til áskriftaréttinda

Áskriftarréttindi starfsmanna Kviku banka að hlutum í bankanum eru ekki óumdeild. Hefur mörgum hluthöfum bankans þótt fyrirkomulagið of mikið að umfangi.

„Það er rétt að mörgum hluthöfum hefur fundist áskriftarréttindin umfangsmikil í hlutfalli við útgefið hlutafé. Helstu athugasemdirnar hafa snúið að umfangi kerfisins. Þegar bankinn var enn óskráður var ekki fyrirséð að hann myndi dafna eins vel og hann hefur gert. Umfangið hefur hins vegar minnkað hlutfallslega í takt við nýtingu starfsmanna á réttindunum og með samrunanum minnkar hlutfallið enn meira,“ segir Marinó, spurður um framtíð fyrirkomulagsins.

„Það er í höndum hluthafa að taka ákvörðun um framhaldið. Samkvæmt tillögum sem verða lagðar fyrir næsta aðalfund er ekki verið að leggja til nýjar heimildir til útgáfu áskriftarréttinda.“