Það er kominn tími til að draga markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun um aðgerðir til loka faraldursins,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið. Þannig verði næstu sóttvarnaaðgerðir fyrirsjáanlegri og um leið líklegar til að njóta breiðs stuðnings í samfélaginu öllu.

Samtök atvinnulífsins kalla eftir því að stjórnvöld nýti reynsluna af baráttunni við útbreiðslu kóróna­veirunnar og útbúi skýran ramma um aðgerðir næstu mánaða. Þau telja að sóttvarnaaðgerðir næstu mánaða þurfi að uppfylla þrjú skilyrði.

„Núverandi ástand kallar ekki á lömun samfélagsins eða viðvarandi krísuástand.“

Í fyrsta lagi að skýr og tímasett áætlun sé um afléttingu afmarkana. Í öðru lagi þurfi liðkun og hömlur að vera tengdar við töluleg viðmið, til dæmis nýgengi smits.

Og í þriðja lagi að sóttvarnaráðstafanir séu innbyrðis samkvæmar, skiljanlegar almenningi og höfðað sé til ábyrgðar hvers og eins um að verja sig og aðra.

„Óvissa um síbreytilegar aðgerðir hefur sett skólahald, starfsemi fyrirtækja og öll áform í samfélaginu í uppnám,“ segir Halldór. Draga þurfi markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun.

Nýgengi kórónaveirusmits, það er smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur, mælist hvergi lægra en á Íslandi samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC).

„Núverandi ástand kallar ekki á lömun samfélagsins eða viðvarandi krísuástand. Góður árangur við takmörkun útbreiðslu smita náðist með samstilltu átaki,“ segir Halldór.

Þá leggur hann áherslu á að persónulegar sóttvarnir verði áfram undirstaða í baráttunni gegn veirunni og þjóðin hafi lært mikið á þessu ári.

„Rýmkun takmarkana á sama tíma og almenningur er hvattur til ábyrgrar hegðunar þarf ekki valda sjálfkrafa aukningu nýrra tilfella,“ bætir hann við.

Að mati Samtaka atvinnulífsins þarf að kynna skýra áætlun um rýmkun takamarkana sem jafnframt gefur fyrirheit um enn frekari rýmkun ef nýgengi smits helst innan fyrirfram ákveðinna marka. Aukist smit á ný verði gripið til ákveðinna fyrirfram kynntra ráðstafana og þær hertar ef þörf krefur.

Núverandi samkomutakmarkanir, sem miða við að tíu manns megi koma saman, falla úr gildi 2. desember. Halldór bendir á að erfitt sé fyrir fyrirtæki og almenning að búa við áframhaldandi óvissu.

„Óvissa er um jólahald og nýtt ár mun því miður markast af miklu atvinnuleysi og efnahagslegum erfiðleikum á mörgum heimilum,“ segir hann.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Fréttablaðið/Ernir

Yfirvöld stefna að því að kaupa bóluefni fyrir minnst 70 prósent þjóðarinnar. Í tilkynningu sem Embætti landlæknis sendi í síðustu viku kom fram að ekki væri ljóst hvenær almenn dreifing á bóluefninu myndi hefjast og því síður hversu hratt einstaka þjóðir myndu fá það magn sem áætlað er að kaupa. Því er óvíst hvenær bólusetning hefst hér á landi þó að vonir séu bundnar við að hún geti hafist á fyrri hluta næsta árs.

„Smit heldur áfram að greinast, í mismiklum mæli, þar til bólusetning landsmanna og stórs hluta heimsbyggðarinnar er lokið,“ segir Halldór. „Í því ljósi er mikilvægt að sóttvarnaaðgerðir séu ítarlega rökstuddar og njóti skilnings og samstöðu samfélagsins alls.“

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á ekki von á því að atvinnuástandið hér á landi batni fyrr en bólusetning hefst. Þetta kom fram í máli hennar á upplýsingafundi almannavarna í gær

Unnur sagði atvinnuleysi stefna í 12,2 prósent í desember og að um 25 þúsund manns væru nú án atvinnu að hluta eða öllu leyti. Aldrei áður hefðu sést slíkar tölur hér á landi.

„Það eru svo margir óvissuþættir, það er þetta bóluefni sem hefur mjög mikið að segja. Ég held að það verði mikill skurðpunktur þegar það verður byrjað að bólusetja vegna þess að þá verða náttúrulega miklar væntingar um að allt fari af stað,“ sagði Unnur.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, býst við því að hægt verði að kynna tilslakanir á gildandi samkomutakmörkunum

„Það eru hugmyndir um það að slaka á einhverju og ef þetta heldur svona áfram þá verður hægt að rýmka ýmislegt sem gerir það að verkum að við getum haldið jólin í einhverju skárra formi en við kannski sáum fyrir tveimur vikum síðan,“ sagði Víðir í kvöldfréttum RÚV síðasta sunnudag.