Framleiðslustofan Tjarnargatan og forritunarfyrirtækið Stokkur hafa hlotið tilnefningu til Digiday, Evrópsku markaðs- og auglýsingaverðlaunanna, fyrir fjórðu Höldum Fókus herferðina, sem unnin var fyrir Samgöngustofu, Sjóvá og Strætó.

Meðal þeirra fyrirtækja sem hljóta tilnefningar til þessarra virtu verðlauna í ár eru The Economics, Reuters Plus, Emirates og Merkle. Alls eru verðlaun veitt í tuttugu flokkum.

Herferðin Höldum Fókus 4 - holdumfokus.is - er tilnefnd til verðlauna í flokknum „besta notkun á gervigreind” en hún þykir einstaklega nýstárleg þar sem bæði er notast við bakenda frá Instagram (API) sem og gervigreindar bakenda frá Google.

„Ekki er nóg með að þetta sé fyrsta herferðin á Íslandi sem nýtir sér gervigreind því jafnframt er um að ræða fyrstu herferðina á heimsvísu, eftir því sem við bestu vitum, sem nýtir sér að tvinna saman Instagram auðkenni, til að persónugera auglýsingu með myndum af hverjum og einum áhorfanda og gervigreindar bakenda Google,” segir Einar Ben, framkvæmdastjóri Tjarnargötunnar.

„Kjarni allra Höldum fókus herferðanna er vitaskuld að nýta tækni og frumlega hugsun til að ná til ökumanna og hafa áhrif á viðhorf til notkunnar snjalltækja samhliða akstri. Það hefur gengið vonum framar og endurspeglast vel í að samkvæmt nýlegri könnun Gallup (2019) sem unnin var fyrir Samgöngustofu, segjast sjö af hverjum tíu sem hafa upplifun af herferðinni, ætla að hætta símnotkun undir stýri. Það er ómetanlegt. Við teljum ástæðu þessa góða árangurs sé stórum hluta að þakka því að leiðarljós Höldum Fókus verkefnisins, hefur verið og mun alltaf vera, að reyna á þolmörk þess sem er geranlegt hverju sinni þegar það kemur að notkun á tækni og miðlun,” segir Einar Ben.

Höldum fókus herferðirnar hafa allar hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna hvort sem er hérlendis eða erlendis, svo sem í Noregi, Þýskalandi, Bretlandi og í Bandaríkjunum.

HöldumFokus_1220.jpg