Tillaga sem lá fyrir hluthafafundi Festi í morgun um breytingu nafni félagsins var felld með öllum greiddum atkvæðum. Í tillögunni var lagt til að félagið fengi nafnið Sundrung.

Einhverjum hefur eflaust þótt sniðugt að leggja þetta til en mikill hiti hefur verið í hluthafahópi Festi frá starfslokum Eggerts Þórs Kristófers­­sonar í byrjun síðasta mánaðar.

Stjórnarkjör aðalmál fundarins

Voru starfslok Eggerts helsta á­stæða þess að boðað er til fundarins en stjórnarkjör var helsta mál fundarins.

Þrjú ný voru kjörin inn í stjórn Festi það voru þau Magnús Júlíusson, stofnandi Íslenskrar orkumiðlunar og aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra, Sigurlína Ingvarsdóttir, fjárfestir og ráðgjafi og Hjörleifur Pálsson, fyrrum framkvæmdastjóri fjármálasviðs Össurar.

Guðjón Reynisson og Margrét Guðmundsdóttir halda sínu sæti í stjórninni.

Guðjón sagði í samtali við Markaðinn fyrr í dag að hann vonaðist til að friður geti skapast eftir fundinn.

Ný stjórn Festi situr nú á fundi, kýs sér formann og skiptir með sér verkum.