Tilboð sem barst í 5,9 prósenta hlut Skútustaðahrepps í Jarðböðunum við Mývatn og sveitarstjórnin ákvað að ganga að í vor reyndist 27 prósentum hærra en verðmat sem sveitarstjórnin hafði látið gera á hlutnum og 57 prósentum hærra en verðmat sem stjórn baðstaðarins lét vinna. Sveitarstjórnin lýsti á fundi sínum fyrr í mánuðinum yfir ánægju sinni með það hversu vel tókst til með söluferlið.

Sveitarfélagið seldi hlutinn fyrir alls 263,7 milljónir króna. Stjórn Jarðbaðanna féll frá forkaupsrétti sínum en þrír stærstu hluthafar baðstaðarins, fjárfestingarfélagið Tækifæri, Íslenskar heilsulindir, sem er dótturfélag Bláa lónsins, og Landsvirkjun, nýttu sér forkaupsrétt og gengu inn í tilboðið.

Sveitarfélaginu barst fyrst óformleg fyrirspurn um eignarhlutinn í Jarðböðunum á vordögum 2015. Var þá lýst yfir vilja til þess að kaupa hlutinn fyrir um 50 til 70 milljónir en þeirri málaleitan var hins vegar hafnað. Í kjölfarið lét stjórn Jarðbaðanna KPMG vinna verðmat á hlutnum en það hljóðaði upp á 168 milljónir króna. Sveitarstjórnin fékk í framhaldinu Íslandsbanka til þess að meta hlutinn og var niðurstaða þess mats, sem lá fyrir í maí 2017, 207 milljónir.

Síðasta haust var ákveðið að auglýsa hlutinn opinberlega til sölu, með það að markmiði að hámarka söluandvirðið, og var samið við Íslandsbanka um að sjá um söluferlið. Tvö skuldbindandi tilboð bárust í allan hlut sveitarfélagsins og tvö tilboð í minni hlut. Samþykkti sveitarstjórnin að ganga að tæplega 264 milljóna tilboði hæstbjóðanda.

Að frádregnum fjármagnstekjuskatti og söluþóknun reyndist hreinn söluhagnaður Skútustaðahrepps vera um 195 milljónir. Á fundi sveitarstjórnar fyrr í mánuðinum var samþykkt að ráðstafa hagnaðinum til meðal annars niðurgreiðslu skulda, gatnagerðar- og viðhaldsframkvæmda og undirbúnings að byggingu sundlaugar.