FTSE Russell vísitölufyrirtækið hefur til skoðunar að hækka gæðaflokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins úr vaxtarmarkaði (e. frontier) í það sem á ensku er kallað „secondary emerging“. Snöggsoðin þýðing á heiti flokksins af hendi blaðamanns er annars flokks nýiðnvætt ríki. Á meðal landa sem eru flokkuð af fyrirtækinu með þeim hætti eru Kína og Indland.

Í september 2019 komst íslenski markaðurinn í það vísitölumengi og hóf leika í sísta flokknum meðal annars vegna smæðar markaðarins en hann hefur stækkað hratt að undanförnu, gagnrýni á uppgjör sem leyst hefur verið með nýju tölvukerfi hjá Kauphöllinni, aflandskróna og lífeyrissjóðum hefur ekki verið heimilt að lána verðbréf.

Frá því í júní hefur stærð markaðarins og fjöldi verðbréfa uppfyllt þau skilyrði sem gert er til nýiðnvæddra ríkja, að því er FTSE Russell segir.

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, segir að þetta séu mjög ánægjulegt tíðindi fyrir íslenska markaðinn og atvinnulífið í heild.

„Við erum greinilega á réttri leið og fikrum okkur smám saman upp eftir mælikvörðum um gæði hlutabréfamarkaða í alþjóðlegu tilliti. Við höfum séð að eftir að FTSE vísitölufyrirtækið hóf að taka íslensk fyrirtæki inn í vísitölumengi sitt og svo MSCI núna í ár, þá glæddist áhugi erlendra fjárfesta á markaðnum þar sem margir byggja fjárfestingarstefnu sína á þessum vísitölum. Þetta er því skref fram á við því að við komumst inn í enn stærra mengi sem beinir sjónum enn fleiri erlendra fjárfesta að markaðnum sem höfðu ekki veitt honum áður gaum. Ég tel að þetta styrki markaðinn og sé til þess fallið að auka virkni á honum sem kemur bæði fyrirtækjum og fjárfestum til góða,“ segir hann.