Rein­hold Richter, trúnaðar­maður starfs­fólks í ál­verinu í Straums­vík, segir fregnir dagsins af mögu­legri lokun ál­versins mikið á­fall fyrir starfs­fólk. Um sé í raun að ræða tvö­falt á­fall þar sem kjara­bætur starfs­fólks hafi enn ekki verið sam­þykktar af stjórn Rio Tin­to.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá í dag sendu for­svars­menn Rio Tin­to frá sér til­kynningu, þar sem kom fram að allar leiðir verði kannaðar til að bregðast við þrengingum í rekstri ál­versins. Þar á meðal kemur til greina að loka ál­verinu al­farið. Um 500 manns vinna í ál­verinu og því ljóst að mörg störf eru í húfi.

„Þetta auð­vitað kom á ó­vart, hvað þetta er dra­stískt og hvaða stefnu þetta er að taka. Þó við vissum alveg að það væru erfið­leikar og tap­rekstur, að þá bjóst maður nú kannski ekki við þessu. Þannig við erum rétt að melta þetta,“ segir Rein­hold.

Spurður út í væntingar starfs­manna til þeirra við­ræðna sem hafnar eru á milli Lands­virkjunar og Rio Tin­to, segir Rein­hold ljóst að starfs­fólk vilji fyrst og fremst halda vinnunni.

„Við viljum bara gjarnan halda vinnunni. Það er auð­vitað okkar punktur í verka­lýðs­hreyfingunni, að halda þessum störfum og allt sem hjálpar því hjálpar okkur.“

Fá ekki leyfi til að skrifa undir - fáheyrt á Íslandi

Form­lega á starfs­fólk ál­versins enn í kjara­við­ræðum við ISAL. Búið er að vinna drög að kjara­samningi, sem að­eins á eftir að skrifa undir. Rein­hold segir samninga­nefnd SA og ISAL ekki hafa fengið leyfi að utan, frá stjórn Rio Tin­to til þess að skrifa undir samninginn.

„Síðan 24. janúar hefur legið á borðinu drög að sam­komu­lagi, sem báðir aðilar eru sam­mála um. En það fæst ekki leyfi frá for­stjórum er­lendis, í valda­stöðum, til að skrifa undir. Sem er fá­heyrt og hefur aldrei gerst áður á Ís­landi,“ segir hann.

„Þannig þetta er eigin­lega bara tvö­falt á­fall fyrir okkur. At­vinnan er ekki tryggari en þetta, að það er verið að hugsa um jafn­vel að loka þessu, að hluta til eða að öllu leyti og það gæti orðið niður­staðan í vor. Og svo þetta að fá ekki bara sömu kjara­bætur og aðrir í þjóð­fé­laginu en vera samt búin að semja.“