Rakel Lind Hauksdóttir er fjármála- og fjáröflunarstjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Henni þykir gaman að læra eitthvað nýtt og hennar uppáhaldsborg er Napólí.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Það er að læra eitthvað nýtt en ég hef óbilandi trú á því að ég sé fær um að læra hvað sem er. Það er einstök tilfinning að ljúka við eitthvað sem í fyrstu virtist óyfirstíganlegt og ferðalagið þangað er ekki síðra. Undanfarin ár hafa félagsstörf verið mitt helsta áhugamál en ég hef tekið virkan þátt í starfi Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, og stofnaði einnig pop-up-verkefnið Hugvöll með góðu fólki. Það er einnig gaman að segja frá því að á tímabili voru æfingar með sippubandi mikið áhugamál og nýtti ég allan minn frítíma í að kenna og sýna sipp.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Það er einfaldlega þannig að ég sef eins lengi og ég kemst upp með og kem mér svo út úr húsi á sem skemmstum tíma. Það er svo í bílnum þegar ég bruna Reykjanesbrautina sem ég á nærandi stund. Þann tíma nýti ég til að hlusta á hljóðbók eða eiga gott spjall við vinkonu.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Það er The Choice eftir sálfræðinginn dr. Edith Eger. Sagan hennar er áhrifarík og eftir lestur hennar upplifði ég mikið þakklæti. Sem unglingur upplifði Edith hrylling þar sem hún var í haldi nasista í útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Martraðarkennd fortíð hennar varð ekki að sársaukafullri framtíð og af vegferð hennar og viðhorfi má svo margt læra. Það sem skín í gegn á vegferð hennar í gegnum lífið er seigla, von og hugrekki og að það erum við sjálf sem veljum hvernig við bregðumst við aðstæðum en hún valdi á hverjum degi í útrýmingarbúðunum að hún ætlaði að lifa.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Síðustu tvö ár hafa verið virkilega krefjandi og segja má að skrifstofa SOS Barnaþorpanna á Íslandi hafi gengið í gegnum breytingaskeið. Við höfum yfirfarið og sjálfvirknivætt ferla en samhliða því innleiddum við nýja vefsíðu og nýtt tölvukerfi. Við breyttum lögum félagsins frá grunni, innleiddum áhættustýringu, formfestum stjórnarhætti og ýmislegt fleira. Við erum fá sem störfum fyrir félagið hér á Íslandi þannig það hefur verið í nógu að snúast.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Stríðið í Úkraínu hefur haft hræðilegar afleiðingar á úkraínsk börn og mun koma til með að hafa neikvæð áhrif á börn í fátækustu ríkjum heims. Við viljum vera til staðar fyrir öll börn og því betur sem gengur að afla fjár því fleiri börnum er hægt að veita stuðning. Helsta áskorunin fram undan er því óneitanlega sú að styrkja fjáröflunarþáttinn. Ég á mér draum um að SOS Barnaþorpin á heimsvísu verði leiðandi á sviði sjálfbærni og við leggjum mikið kapp við það héðan frá Íslandi.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Hótelstýra, ekki spurning. Sem ung kona starfaði ég lengi í hótel- og veitingageiranum og átti mér þann draum að stýra hóteli erlendis. Kikkið sem fylgir því að skipuleggja og tryggja að allt gangi upp er engu líkt.

Hver er þín uppáhaldsborg?

Napólí er frábær borg sem hefur upp á margt að bjóða. Hún iðar af lífi og hvergi í veröldinni smakkast matur betur en þar.

Helstu drættir

Nám:

BSc. í viðskiptafræðin

ML í lögfræði frá HR

Störf: Fjármála- og fjáröflunarstjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 2007-2020, meðal annars aðstoðarmaður framkvæmdastjóra frá 2015.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Burkna Birgissyni, sjóntækjafræðingi og leikara. Saman eigum við Júlíu Líf og fjórfætlinginn Emblu.