Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir lítið þýða að fara í miklar launahækkanir þegar verðbólga er átta eða níu prósent.

„Ef einhver kemur hér og segist ætla að fara í kjarasamninga þar sem laun eru hækkuð umfram verðbólgu til að auka kaupmátt þá get ég fullyrt að sá hinn sami eða sú hin sama er á algjörum villigötum,“ segir Halldór Benjamín í samtali við Markaðinn.

Gerð kjarasamninga sé einn þáttur í því að missa tök á verðbólgu að mati Halldórs Benjamíns. „Það er ekkert auðveldara í heiminum en að missa tök á verðbólgu,“ segir hann.

Verkefni vinnumarkaðarins sé að hans mati að bíða af sér storminn og ná verðbólgunni niður. Það þýði ekkert að streitast á móti þegar verðbólga ríði röftum í öllum löndum.

„Stíga eitt skref aftur á bak til þess að geta tekið tvö eða þrjú skref fram á við. Ég trúi að langtímahorfur í íslensku atvinnulífi og íslensku samfélagi séu afskaplega góðar.“

Síðasti þáttur Markaðarins fyrir sumarfrí fer í loftið í kvöld á Hringbraut. Hægt er að fylgjast með þættinum í sjónvarpinu klukkan 19:00 eða hér á vef Hringbrautar.