Vinnu­mála­stofnun bárust hóp­upp­sagnir frá fimm­tán fyrir­tækjum í dag og í gær en for­stjóri Vinnu­mála­stofnunar, Unnur Sverris­dóttir, greinir frá því í sam­tali við RÚV að í kringum þúsund manns hafi því fengið upp­sagnar­bréf.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá um síðustu mánaða­mót var á fjórða þúsund starfs­mönnum sagt upp hjá 30 fyrir­tækjum en meiri­hluti af upp­sögnunum voru hjá Icelandair þar sem 2140 starfs­mönnum var sagt upp.

16 þúsund afskráð sig af hlutabótaleiðinni

Unnur útilokar ekki að fleiri uppsagnir berist en segist ekki eiga von á sam­bæri­legum upp­sögnum og voru um síðustu mánaðarmót.

Að því er kemur fram í frétt RÚV hefur veru­lega fækkað í hópi þeirra sem nýta sér hluta­bóta­leiðina en um 16 þúsund manns hafa af­skráð sig af hluta­bóta­leiðinni það sem af er mánuði, sér­stak­lega eftir að fjöldi rekstrar­aðila fengu að opna dyr sínar á ný vegna til­slakana á sam­komu­banni.