Alls hafa nú um þúsund manns sótt um þær 14 stöður og 200 stöðu­gildi sem flug­fé­lagið Play aug­lýsti í gær. Þá hafa alls um 26 þúsund manns skráð sig á póst­lista en fé­lagið kynnti í gær að þau ætli að gefa alls þúsund flug­miða.

„Það voru um 900 búin að sækja um þegar við vöknuðum í morgun, en ég geri ráð fyrir því að það sé komið upp í þúsund núna,“ segir María Margrét Jóhanns­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Play, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Það eru fjölbreyttar stöður í boði hjá flugfélaginu Play.
Skjáskot/Fréttablaðið

Er þetta eitt­hvað sem þið bjuggust við?

„Já og nei. Þetta er svo­lítið í takti við þær væntingar sem við höfðum en þó meira en við áttum von á. Við áttum von á góðum undir­tektum en þetta er miklu meira en það. Það er ljóst að það er mjög mikill á­hugi á því að starfa hjá fyrir­tækinu sem er gleði­legt,“ segir María Margrét.

Aug­lýst voru allt fjór­tán störf, en inni í því eru á­hafnar­með­limir og því eru stöðu­gildin á milli 100 til 200, að sögn Maríu. Störfin eru fjöl­breytt eins og þau eru mörg, en meðal þeirra staða sem aug­lýstar voru eru flug­liðar, orð­snillingar, flug­menn, vef­málari, sölu­séni, þjónustu­hetjur og talna­glöggvari.

Gera eitt­hvað skemmti­legt með við­skipta­vinum

Þá tilkynnti félagið einnig í gær að þau ætli að gefa þúsund farmiða. Spurð hvers vegna þau á­kváðu að gefa miðana María Margrét það tví­þætt.

„Við viljum leyfa fólki að vera með í þessu og prófa vöruna okkar en við erum einnig að fara af stað um há­vetur sem er ekki háanna­tími hjá flug­fé­lögum al­mennt og því langaði okkur að nýta tæki­færið og gera eitt­hvað skemmti­legt með okkar við­skipta­vinum eða þeim sem hafa á­huga,“ segir María Margrét.

Hún segir að þau vonist svo til þess að geta bráð­lega kynnt hverjir á­fanga­staðir flug­fé­lagsins verða.

Fé­lagið var form­lega kynnt í gær á blaða­manna­fundi. Ein­kennislitur þess er rauður og er á­formað að hafa í fyrstu tvær Air­bus 320 vélar í eigu fé­lagsins sem verður flogið til á­fanga­staða í Evrópu. Næsta vor er þó á­ætlað að bæta við fjórum vélum og hefja þá flug til Norður-Ameríku. Stefnt er á að reka fé­lagið sem lág­gjalda­flug­fé­lag. Sala á flugi á að hefjast í nóvember.