Eyþór Ívar Jónsson, annar tveggja eigenda Akademias og frumkvöðull í námskeiðum um góða stjórnarhætti hér á landi, segir að stjórnir fyrirtækja þurfi að setja sér frekari viðmið í siðferðilegum álitamálum og sjálfbærni. „Við þurfum líka að sjá góða stjórnarhætti í opinbera geiranum, sveitarstjórnum, íþróttahreyfingunni og hjá lífeyrissjóðum.“

Þetta kemur fram í viðtali við Eyþór í þættinum Stjórnandinn með Jón G. á Hringbraut en þátturinn var á dagskrá stöðvarinnar í gærkvöldi og auðvelt að nálgast hann í tímaflakki.

HÁTT Í 300 VIÐURKENNDIR STJÓRNARMENN

Eyþór var að útskrifa hóp viðurkenndra stjórnarmanna í tíunda skiptið á dögunum og hafa núna nær 300 einstaklingar útskrifast sem viðurkenndir stjórnarmenn hér á landi. „Nokkrir sem sótt hafa þessi námskeið hafa setið í stjórnum í um þrjátíu ár. Einn þeirra hafði á orði við mig að ég hefði getað sparað honum tíu ár hefði ég komið með þetta námskeið fyrir þrjátíu árum og bætti við: „Allt þetta hvernig við gerðum hlutina var aldrei skilvirkt og markvisst.“

NAUÐSYN Á ÞJÓÐARÁTAKI Í STAFRÆNNI BREYTINGU

Í spjallinu við Eyþór er víða komið við. Þeir Jón ræða stafrænu byltinguna og segir Eyþór að gera þurfi þjóðarátak á Íslandi í stafrænni breytingu og því hafi Akademias lagt áherslu á kennslu í þeim fræðum. „Líta þarf á stafræna breytingu sem tækifæri en ekki ógn.“

„ÉG ELSKA ÍTALI EN ÞAÐ ER ERFITT AÐ VINNA MEÐ ÞEIM“

Eyþór hefur kennt við CBS-háskólann í Kaupmannahöfn í átján ár og búið sömuleiðis á Ítalíu um árabil. Hann hefur reynslu í námskeiðahaldi úti um allan heim. Um muninn á Dönum og Ítölum þegar kemur að stjórnun segir Eyþór:

„Ég elska Ítali og finnst þeir skemmtilegasta fólk sem ég hitti; þeir eru frábærir og með mikla útgeislun. Danirnir eru meira til baka og það er allt öðru vísi að vinna með þeim. Það er eiginlega ekki hægt að vinna með Ítölum, að minnsta kosti rosalega erfitt. En frábært að vinna með Dönum; þeir eru skipulagðir og horfa langt fram í tímann. Báðar þjóðirnar er frábærar á sína vegu. Þessar þjóðir eru leiðandi í hönnun og hönnunarhugsun og það er kannski samnefnarinn á millil þessara þjóða,“ segir Eyþór Ívar.