Hverja páska hefst um­ræða á sam­fé­lags­miðlum og annars staðar um plast og um­búðir um páska­egg. Páska­eggja­fram­leið­endur segja í sam­tali við Frétta­blaðið að þau séu vel með­vituð um að neyt­endum sé um­hugað um um­hverfið, en segja að á sama tíma þurfi að gæta að gæðum vörunnar og tryggja upplifun neytenda. Hjá öllum hefur plast í umbúðum verið minnkað eftir bestu getu.

Margir óánægðir árið 2016 þegar piparmyntan smitaði

Hjá Nóa Síríus hefur mikið um­bóta­starf verið unnið síðustu ár hvað varðar um­búðir. Silja Mist Sigur­karls­dóttir, markaðs­stjóri Nóa Síríus, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að eftir „pipar­myntu­fía­skóið“ árið 2016 þegar allar plast­um­búðir voru fjar­lægðar hafi verið á­kveðið að fara milli­veg og er því ein­hver hluti sæl­gætis enn í plasti, en allt fjar­lægt sem hægt er að fjar­lægja. Með því hefur þeim tekist að minnka plast­notkun á eggjunum um allt að 70 prósent.

„Við fórum í heljarinnar átak að taka plast úr páska­eggjunum árið 2016. Þá tókum við allt plast úr og lentum því miður í svo miklu smiti. Það er stóra „pipar­myntu­fía­skóið“. Við vorum þá að reyna okkar allra besta í að vera um­hverfis­væn,“ segir Silja.

Hún segir að verkið sé vanda­samt því að páska­eggin séu eina varan þar sæl­gætinu er blandað saman og það þarf að huga vel að smiti.

„Til þess að eyði­leggja ekki upp­lifun fólks að borða nammið sér og súkku­laðið sér þá er þetta heljarinnar mál. Við þurftum því að setja aftur ein­hverja poka, en það er alveg í lág­marki,“ segir Silja.

Fjarlægðu páskaunga og plastblóm

Þá hafa þau einnig fjar­lægt páskaungana í um 80 til 90 prósenta til­fella og plast­blómin hafa einnig verið fjarlægð í einhverjum tilfellum.

„Nú eru súkku­laði­kanínur sem eru klæddar í ís­lenska lopa­peysu. Það er al­ís­lensk hönnun. Við settum svo sykur­blóm í stað gervi­blómanna,“ segir Silja.

Hún segir að þar sé um árs­tíða­bundna vöru að ræða þá geti hver breyting skipt veru­legu máli fyrir þau, eins og mátti sjá á „pipar­myntu­fía­skóinu“.

„Við tókum stóran sjens með kanínurnar, að skipta út ungunum, en það gengur rosa­lega vel,“ segir Silja.

Silja segir að þau séu í stans­lausri um­bóta­vinnu og séu mjög með­vituð um plastið.

„Ég gekk allt of langt þegar ég tók allt og það myndaðist smit­hætta á milli eggjanna og sæl­gætis sem var að finna inni í eggjunum. Sumir voru á­nægðir en við bættum öllum upp sem voru ó­á­nægðir. Okkur þótti þetta að auð­vitað mjög leiðin­legt, en þetta var allt í góðu gert,“ segir Silja.

Hún segir að núna sé Nói Síríus í þróunar­vinnu með um­búða­fyrir­tækjum og að þau vinni að því að bæði þynna plastið og finna leiðir til að nota plast sem myndi brotna niður í moltu.

Breyta einnig öðrum vörum

Hún segir að þau leggi þó ekki ein­göngu á­herslu á að páska­eggin séu um­hverfis­væn heldur hefur verið unnið að því að gera aðrar um­búðir um­hverfis­vænar og þau hafi til dæmis skipt út um­búðum 150 gramma rjóma­súkku­laði­stykkja og þau séu núna í pappakartoni, auk þess sem eitt­hvað af súkku­laðinu er í bökunar­pappír líkt og suðu­súkku­laðið hefur verið í. Fjár­fest var í nýjum vélum til að breyta því.

„Við tókum allt plast af þessum um­búðum og það er stærsti þátturinn í okkar fram­leiðslu. Þetta var risa­stórt verk­efni og er al­ger­lega á okkar kostnað, en þótt að hann aukist þá viljum við sýna sam­fé­lags­lega á­byrgð í verki. Við erum að reyna okkar allra besta að koma plastinu út og koma okkur í eins um­hverfis­vænar um­búðir og við getum,“ segir Silja að lokum.

Ofan á einhverjum hluta eggjanna er nú að finna páskakanínu úr súkkulaði, en á öðrum er enn að finna páskaunga.
Fréttablaðið/Ernir

Selja færri egg til að minnka sóun

Hjá Freyju hefur einnig verið unnið undan­farin ár að því að minnka plast­notkun í um­búðum en í ár var einnig á­kveðið að besta leiðin til að minnka sóun væri ein­fald­lega að selja færri páska­egg. Á­kveðið var að hætta fram­leiðslu páska­eggja númer 10, sem voru stærstu eggin þeirra. Hann segir að baki á­kvörðuninni hafi bæði verið um­hverfis- og hag­kvæmnis­sjónar­mið.

„Þetta eru eggin sem eru tíma­frekust í fram­leiðslu og þurftu mestu orku fólks, tækja og hrá­efna. Það var því á­kveðið að hætta fram­leiðslu þeirra til að minnka sóun og minnka notkun á um­búum, hrá­efnum, förgun á vöru og öðru sem á sér stað eftir páska,“ segir Pétur Thor Gunnars­son, markaðs­stjóri hjá Freyju, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Pétur segir að það hafi verið rætt við birgja hvort hægt væri að nýta önnur hrá­efni en plast í um­búðir.

„Við höfum rætt það við okkar birgja hvort hægt sé að fara í aðrar um­búðir. Við tökum enga „sjénsa“ og skiptum út öll um­búðum í einu en höfum verið að skoða þetta með á­kveðnar vöru­nýjungar og með fram­tíðina í huga. Fyrstu vís­bendingar eru þær að pappírinn er dýrari,“ segir Pétur.

Hann segir að við pappa­um­búðirnar séu kostir og gallar og segir að stærsti gallinn sé sá að margar þeirra séu plast­húðaðar.

„Það er ein af á­stæðunum fyrir því að við höfum ekki farið í það að skipta, því oft á tíðum eru þessar um­búðir hrein­lega ó­endur­vinnan­legar. Þarna ertu komin með um­búðir sem lenda alveg bókað í urðun,“ segir Pétur.

Hann segir að reynt sé að tak­marka notkun plast­um­búða á því sæl­gæti sem er að finna innan í eggjunum. Sumt sé í lausu en að annað verði að vera í um­búðum til að koma í veg fyrir smit. Til dæmis þurfi hlaupið að vera í plasti því það smiti gjarnan út frá sér.

„Það þarf til að vernda vörurnar, en líka til að­greiningar þegar vörurnar eru eins út­lits­lega en allt öðru­vísi þegar kemur að bragði. En það er ein­göngu notað fyrir þær vörur sem þurfa að vera í plasti, annars er allt í lausu inni í egginu, eins og möndlur og djúpur og fleira,“ segir Pétur.

Mikil úrval páskaeggja er að finna í verslunum.
Fréttablaðið/Ernir

Reyna eftir bestu getu að minnka plast

„Við erum stórir í bitum og öskjurnar eru úr pappa, en það er auð­vitað plast innan í. Það er þynnra plast og við styrkjum um­búðir með pappa. Við erum alltaf að færa okkur meira í þessar stærri um­búðir á sama tíma og sjoppunum fækkar,“ segir Jóhann Ögri Elvars­son, fram­leiðslu­stjóri hjá Góu, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að plast­notkun sé að minnka hjá fyrir­tækinu sam­hliða því að minni eftir­spurn er eftir því á markaði. Hvað varðar páska­eggin þá nota þau plast utan um nammið innan í til að vernda gæði þess og koma í veg fyrir smit á milli sæl­gætis.

„Þetta er það sem kúnninn vill. Það hefur verið kvartað undan namminu þegar það smitar,“ segir Jóhann.

Hann segir að ekki sé hægt að pakka beint í pappír nema að hann sé plast­húðaður og það sé ekki allt endur­vinnan­legt á sama hátt og plastið sé.

Jóhann segir að þau séu hætt að vera með máls­hætti með plast­hring utan um og hafi tekið á það ráð að prenta máls­háttinn á um­búðirnar þegar hægt var.

„Það er inni í um­búðum til að spara bæði plast og pappír,“ segir Jóhann.

„Við höfum alltaf verið með þetta í huga að reyna að minnka plastið bara út af stöðunni í heiminum. Öll hrá­efni sem við fáum í plasti endur­vinnum við. En eins og markaðurinn er í dag þá er allt að færast í stærri einingar og þá fækkar stykkjunum sem við seljum,“ segir Jóhann að lokum.